Sjávarútvegs-og landbúnaðar ráðherra, ágætu gestir og þingfulltrúar. Ég býð ykkur velkomin á þetta 48. Þing Farmanna-og fiskimannasambands Íslands og vil áður en lengra er haldið biðja viðstadda að rísa ú sætum og minnast þeirra félaga okkar sem fallið hafa frá á þeim tveimur árum sem liðin eru frá síðasta þingi sambandsinis.
Það sem hæst ber á þeim tveimur árum sem liðin eru frá síðasta þingi okkar er, að eftir sex ára tímasbil án árangurs í því grunnhlutverki samtaka sjómanna og SFS að sjá til þess að kjarasamningar fiskimanna sé endurnýjaðir með eðlilegum hætti þá lauk þessari atburðarrás loks í febrúar sl. með samþykktum kjarasamningum allra stétta sjómanna á fiskiskipum eftir lengsta sjómannaverkfall sjávarútvegssögunnar. Þessi framgangur kjaradeilunnar og sá óratími sem leið umfram gildistíma fyrri samnings getur ekki verið ásættanlegur. Megin lærdómur af þessu ferli hlýtur að vera sá að það er fullkomlega óásættanlegt að endurnýjun kjarasamnings geti dregist á langinn svo árum skipti. Engri atvinnugrein ætti að líðast slík framferði. Lagaumhverfinu verður að breyta á þann veg að innan ákveðins tímaramma, frá lokum gildistíma eldri samnings, verði deiluaðilar að ná saman. Að öðrum kosti kæmi til kasta ríkissáttasemjara sem fengi mun víðtækari heimildir en til staðar er í dag til að knýja fram niðurstöðu. Horfa mætti í því samhengi til norðurlandanna þar sem margra ára dráttur á endurnýjun kjarasamnings í mikilvægri undirstöðuatvinnugrein gæti hreinlega ekki átt sér stað. Þótt við blasi að frammistöðuleysið við endurnýjun kjarasamninga sé sýnu lakast milli aðila í sjávarútvegi þá er þessi mýta til staðar í öllum greinum atvinnulífsins. Markmið nágrannaþjóða okkar ganga út á að nýr samningur liggi fyrir þegar gildistími eldri samnings rennur út. Þar hafa allt að 70 % allra kjarasamninga verið klárir þegar gildistíma eldri samnings lauk. Á Íslandi er hlutfallið 0 %.
Í þessum málaflokki blasir því við að full ástæða er fyrir löggjafann að endurskoða lögin um stéttarfélög og vinnudeilur til að þessi mikilvægi þáttur í tilveru þjóðarinnar komist í betra horf en raun ber vitni.
Undanfarin fimm ár hefur átt sér stað veruleg endurnýjun á fiskiskipaflota okkar. Eftir margra ára lognmollu á því sviði þá má segja að stífla hafi brostið. Allmörg notuð en þó nýleg og vel búin skip hafa leyst eldri af hólmi en þó hefur megin breytingin sem athygli hefur vakið falist í að ný, öflug og glæsileg skip hafa siglt fánum prýdd til heimahafnar og fleiri eru væntanleg á næstunni. Ég vil óska útgerðum og áhöfnum allra þessara skipa til hamingju með þessa byltingar- kenndu breytingu og óska þeim velfarnaðar í framtíðinni. Mér finnst ég samt ekki komast hjá því að nefna að um leið og maður gleðst yfir öllu því jákvæða sem fylgir heimkomu nýs skips þá verður manni hugsað til þeirra sjómanna sem ekki fengu pláss á þessum nýju skipum þar sem fækkun í áhöfn er æði oft eðlilegur fylgifiskur endurnýjunar. Ég tel hins vegar að útgerð eigi að fela skipstjóra sínum að ákveða um mönnun skips og í ljósi reynslunnar hafi það á sínum tíma verið mistök af okkar hálfu að semja um núverandi fyrirkomulag í því sambandi. Ábyrgðin og þekkingin er óumdeilanlega skipstjórans þegar á hólminn er komið.
Dagana 16. og 17. nóvember fór fram í Hörpunni Sjávarútvegsráðstefnan 2017 þar sem u.þ.b. 70 erindi voru flutt í 14 málstofum um fjölmarga málaflokka sem allir tengjast sjávarútveginum með beinum hætti. Í málstofu 1 var fjallað um öryggismál sjómanna þar sem að sex erindi voru á dagskránni. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta sérstaklega er að ég tel að sjálfsögðu blasa við að ekkert jafnist á við ný, öflug og vel útbúin skip til að efla öryggi sjómanna.
Í framhaldi af þessu langar mig til að minnast á þá vinnu sem fram undan er í tengslum við þá kjarasamninga sem samþykktir voru á vordögum milli aðila sjávarútvegsins. Þar er mikið verk óunnið og af ýmsum ástæðum hefur ekki enn tekist að hrinda í framkvæmd fyrsta samstarfsverkefni samningsaðila sem felst í bókun um athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í íslenska fiskiskipaflotanum.
Í niðurlagi þessarar bókunar er því lýst yfir að stefnt skuli að því að þessu verkefni verði lokið fyrir áramót en nú er ljóst að svo verður ekki. Þessi staða fær mann til að íhuga hversu mikil alvara og þá um leið hversu miklar líkur séu til þess að starfshópur samningsaðila nái að ljúka ætlunarverki sínu þ.e.a.s. að hafa lokið heildarendurskoðun á kjarasamningi fyrir fiskimanna eigi síðar en 1. Júlí 2019. Það er einlæg von mín að ofangreind markmið náist en til þess þarf hreinlega hugarfarsbreytingu frá þeim viðhorfum og vinnubrögðum sem blasa við þegar horft er til fortíðar.
Hvað varðar stöðu annara kjarasamninga þá eru samningar í gildi fyrir flesta samningsaðila okkar þ.e.a.s. Farskip, ferjur, hafnsögumenn og hafnarstarfsmenn Faxaflóahafna og Sambands íslenskra sveitarfélaga, skipstjórnarmenn hjá Hafrannsóknarstofnun, LHG og rannsóknarskipa Neptune. Gildistími þessara samninga er mismunandi eða allt frá því að renna út þann 1. maí 2018 og til 1. des.2019. Það sem út af stendur eru kjarasamningar við Landsamband smábátaeigenda en þar hefur ekkert gerst frá 1. Júní sl. og vandséð að þar verði breyting á meðan þeir halda til streitu kröfu um að samningurinn einskorðist ekki lengur við smábáta.
Auk þessa höfum við átt 11 fundi undir stjórn sáttasemjara við fulltrúa SA ásamt aðilum frá fyrirtækjum í skemmtisiglingum og hvalaskoðun án nokkurs árangurs og að óbreyttu stefnir í aðgerðir að hálfu VM og FS . Að endingu vil ég nefna fyrirhugaða aðkomu okkar að gerð kjarasamnings vegna skipstjórnarmanna hjá laxeldisfyrirtækjum en það ferli er, ef heldur sem horfir í burðarliðnum.
Ég mun nú venda mínu kvæði í kross og fjalla um það mál sem hæst ber á þessu þingi. Þar er um að ræða tillögu formanna aðildarfélaga FFSÍ. Þ.e.a.s. Félags skipstjórnarmanna, Vísis, Verðanda, Félags Bryta og Félags Ísl. Loftskeytamanna um að FS taki við hlutverki FFSÍ og sambandið verði lagt niður. Af ofangreindu tilefni hafa formenn FS, Vísi og Verðanda fundað og sammælst um það ferli sem fara þarf fram til að ljúka þessari breytingu á fyrirkomulagi á því mikilvæga hlutverki að standa vörð um hagsmuni íslenskra skipstjórnarmanna. Stjórnir allra aðildarfélaganna hafa verið upplýstar um framgang mála og mun ég fara nánar yfir það sem fyrir liggur á morgun þegar ofangreind tillaga verur borin upp samkvæmt dagskrá þingsins.
Að þessu sögðu langar mig til að grípa niður í brot úr ræðu minni frá árinu 2003 þ.e.a.s. áður en Félag skipstjórnarmanna var stofnað en með stofnun þess árið 2004 runnu saman í eitt undir merkjum félagsins u.þ.b. ¾ af skipstjórnarmönnum á Íslandi.
„ Ekki þarf annað en að benda á þróunina í atvinnugreininni þar sem fyrirtækjum fækkar og þau stækka. Sama hlýtur að gilda hvað varðar stéttarfélög, ekki síst þar sem návígi við allsráðandi vinnuveitendur stendur öllum raunhæfum og eðlilegum samskiptum fyrir þrifum. Ég fullyrði að ekkert félag skipstjórnarmanna er þannig statt um þessar mundir að það líði ekki fyrir smæð sýna.
Tilgangur stéttarfélaga felst í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum og auknum réttindum félagsmanna. Til þess að árangur náist þarf aukin árif. Aukin áhrif skapast þar sem saman fara eining félagsmanna og fjárhagslegur styrkur stéttarfélagsins.
Góðir félagar. Langur tími er liðinn frá því að frammámenn innan félaga FFSÍ töldu að stefna bæri að sameiningu í eitt landsfélag. Í gegn um tíðina hefur mikið verið rætt og ritað um þessi málefni án stórra skrefa í átt til sameininga. Það er einlæg von mín að nú fari tíma orða að linna og tími verka að taka við“.
Svo mörg voru þau orð sem látin voru falla árið 2003 og síðan eru liðin mörg ár. Nú er það mat stjórnar FS að í ljósi reynslunnar sé orðið tímabært að taka næsta skref í átt til sameiningar.
Brottkastumræðan
- mars. 2011. Var gefin út reglugerð um makrílveiðar fyrir komandi vertíð. Öllum fiskiskipum, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, er heimilt að stunda veiðar á makríl í fiskveiðilandhelgi Íslands og á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), utan lögsögu ríkja, að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu samkvæmt reglugerð þessari.
Margir skipstjórar höfðu samband símleiðis eða komu á skrifstofuna til að lýsa óánægju sinni með þær þá stöðu sem upp kæmi í kjölfar þessarar reglugerðar.
Af þessu tilefni sendi ég Sjávarútvegsráðuneytinu mjög harðort bréf þar sem lýst var afleiðingum af ákvörðun ráðuneytisins. Mun ég aðeins grípa niður í bréfinu þar sem minnst var um stóryrðin en titill bréfsins var.
Lögskipað umhverfishryðjuverk.
„Fjöldi skipa sem á engan hátt voru í stakk búin til að til að stunda veiðarnar fengu veiðiheimildir, flykktust á miðin og hófu veiðar. Þannig var samankominn á miðunum fjöldi skipa með gríðarlega veiðigetu, takmarkaða frystigetu og nánast enga aðstöðu til að geyma hráefnið til að halda því fersku.
Ljóst er að mikið magn hefur á síðustu vertíð farið forgörðum með þessum hætti. Þar af leiðandi lýsir það óásættanlegu þekkingarleysi og um leið virðingarleysi gagnvart auðlindinni ef stjórnvöld láta frá sér fara reglugerð sem viðheldur slíkri hörmungar-umgengni. Bláköld niðurstaða er því einfaldlega sú að þau skip sem ráða ekki við að innbyrða mikið magn og gera úr því hámarks verðmæti, eiga ekkert erindi á makrílveiðar. Það er reginhneygsli og yfirvöldum til ævarandi skammar ef skipum sem nýta aðeins brot af þeim afla sem þau veið verður leyft að stunda þessar veiðar.“
Varðandi brottkast almennt á bolfiskveiðum þá er það mín skoðun að þar hafi átt sér stað afgerandi jákvæð viðhorfsbreyting í þessu efni þótt alltaf verði fyrir hendi tilvik þar sem slíkt hefur átt stað. Árum saman hef ég hlustað á menn tala um að það sé ekki lengur glaðst yfir stóru holunum. Ástæðan er augljós og felst í því að of mikið magn kemur niður á gæðum og leiðir til skemmda og eyðileggingar á fiski. Sú staða getur komið upp í einhverju tilviki að það mikið magn hafi verið í einu holi að restin af því verði ekki vinnsluhæft þegar að því kemur. Þessar aðstæður munu ávallt vera fyrir hendi jafnvel þótt skipstjórnarmenn geri allt sem í valdi þeirra stendur til að forðast slíkt. En viðhorfsbreytingin er að mínu mati gríðarleg þegar á heildina er litið.
Hvað varðar misræmi í hlutfalli íss í lönduðum afla þá liggur fyrir þinginu ályktun sem gengur út á að skora á stjórnvöld að afnema heimavigtunarleyfi og að hlutfall íss í afla verði föst prósentutala. Auk þess sem stórefla þurfi eftirlitsstarfsemi Fiskistofu og LHG.
Góðir þingfulltrúar og gestir, okkar umbjóðendur eru án nokkurs vafa einn mikilvægasti hlekkurinn í atvinnulífi þjóðarinnar og það er því mjög mikilvægt að vel takist til við að gæta hagsmuna þeirra. Ég er þess fullviss að þing okkar verði starfsamt og skili frá sér ályktunum og samþykktum til heilla fyrir sjómannastéttina og um leið þjóðfélagið í heild.