Hvað styrkjum við?

Félagsmenn í FS geta sótt um styrki í sjóði félagsins samkvæmt reglum sem um þá gilda.  Sótt er um alla styrki í gegnum Mínar síður FS.  Með öllum umsóknum þarf að fylgja greiðslukvittun.  Í öllum tilfellum er hámarksstyrkur á ári miðaður við almanaksárið.  Styrkir og sjúkradagpeningar eru greiddir út fyrsta virkan dag hvers mánaðar.
Styrktarsjóður FS.   Rétt á styrk úr sjóðnum eiga félagsmenn FS sem greitt hefur verið fyrir samfleytt í 6 mánuði áður en tekjutap eða útgjöld sem leiða til styrkumsóknar eiga sér stað.
Styrkir úr félagssjóði.   Rétt á styrk úr sjóðnum eiga félagsmenn FS sem greitt hefur verið fyrir samfleytt í 6 mánuði áður en útgjöld sem leiða til styrkumsóknar eiga sér stað.
Styrkir úr starfsmenntasjóði.   Rétt á styrk úr sjóðnum eiga félagsmenn FS sem greitt hefur hefur verið fyrir samfleytt í sjóðinn í 6 mánuði áður en útgjöld sem leiða til styrkumsóknar eiga sér stað.

Almenna reglan er að allir styrkir frá stéttarfélögum teljast til skattskyldra tekna móttakanda. Skiptir ekki máli hvort þeir eru greiddir úr styrktar- eða sjúkrasjóðum, starfsmenntunar- eða endurmenntunarsjóðum félaganna.

ATH.   Undantekningar frá almennu reglunni eru að, ekki er greiddur skattur af: Heilsuræktarstyrk, starfstengdu námskeiði og dánarbótum.

Tæknifrjóvgun / ættleiðing / fæðingarstyrkur

Sjóðfélagi getur sótt um styrk vegna kostnaðar við tæknifrjóvgun / ættleiðingu / fæðingarstyrk.  Styrkurinn nemur allt að helmingi kostnaðar þó að hámarki kr. 240.000.-

Styrkur þessi er veittur í eitt skipti vegna fæðingar barns og ættleiðingar, en í tvö skipti vegna tæknifrjóvgunar.

Stoðtækjakaup

Greidd eru 50% af kostnaði vegna stoðtækjakaupa þó að hámarki kr. 110.000.- Um styrk þennan má sækja þriðja hvert ár.

Sjúkraþjálfun / nudd og endurhæfing

Hægt er að sækja um styrk úr styrktarsjóði vegna endurtekinna meðferða stoðkerfisins hjá faglega viðurkenndum aðila og má þar nefna sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, sjúkranuddara, nálastungur, osteopata, kírópraktor, höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð.   Hámarksupphæð á ári er 150.000 kr.

Sjúkrakostnaður

Sjóðfélagi getur sótt um endurgreiðslu vegna sjúkrakostnaðar. Endurgreiðslan nemur 50% af heildarkostnaði félagsmanns að hámarki kr. 70.000.- þegar sjúkrakostnaður hefur náð kr. 140.000.-

Sjúkrakostnaður félagsmanns þarf að hafa náð kr. 24.000.- til þess að sækja um skv. þessum lið.

Áfengismeðferð, sjóðfélagi getur sótt um dagpeninga í allt að 45 daga vegna áfengismeðferðar fyrir þann tíma sem viðkomandi er í sérhæfðri meðferð, dagpeningar eru 18.000 kr. á dag.

Heilsustofnun NFLÍ - dvöl

Heilsustofnun NLFÍ – og aðrar heilsustofnanir:
Heimilt er að veita styrk vegna meðferðar sjóðfélaga á viðurkenndri heilsustofnun. Styrkurinn er kr. 5.000.- pr. dag í allt að 30 daga (150.000.- að hámarki) á hverju fimm ára tímabili.

Laseraðgerðir á augum

Sjóðfélagi getur sótt um styrk vegna kostnaðar við augnaðgerðir með leysigeislum eða augnsteinaskipta.

Vegna laser aðgerða er greiddur helmingur (50%) kostnaðar þó að hámarki kr. 120.000.- pr. auga.

Vegna augnsteinaskipta er greiddur helmingur (50%) kostnaðar þó að hámarki kr. 140.000.- pr.auga.

Hjarta -og lungna endurhæfing

Sjúkra- og styrktarsjóður FS tekur þátt í kostnaði þeirra sjóðfélaga sem eru í endurhæfingu hjá Hjarta og lungnastöðinni.
Endurgreiðslan er sambærileg við styrk vegna sjúkraþjálfunar.

Hjartavernd

Sjúkrasjóður endurgreiðir sjóðfélögum kostnað vegna áhættumats hjá Hjartavernd.  Gjaldið er 29.800 kr.  í febrúar 2022.

Heyrnartæki

Hægt er að sækja um styrk vegna kaupa á heyrnartækjum.  Styrkurinn er 75% af kostnaði sjóðfélaga þó að hámarki  280.000 kr.  pr. heyrnartæki.  Styrkurinn veitist sjóðafélaga einu sinni á fimm ára fresti.

Heilsurækt

Sjóðfélagi getur sótt um styrk vegna heilsuræktar, s.s. líkamsrækt, golf, árskort í sund osfrv. Styrkurinn nemur að hámarki 65.000 kr.  á ári gegn framvísun kvittunar frá viðurkenndum aðila.  Kaup á tækjum og/eða öðrum útbúnaði til heilsuræktar er ekki styrkhæfur.

Dánarbætur

A) Dánarbætur vegna útfarar félagsmanns sem var í fullu starfi á kjarasamningssviði félagsins við andlát greiðir félagið allt að kr. 1.000.000.  Skilyrði fyrir fullum bótum er að greitt hafi verið samfleytt af hinum látna til félagsins síðustu 5 ár.  Fyrir styttri félagsaðild eru greiddar hlutfallslegar bætur.  Ekki eru greiddar dánarbætur fyrir félagsaðild sem er styttri en 6 mánuðir.

B) Dánarbætur vegna útfarar félagsmanns sem látið hafði af störfum á kjarasamningssviði félagsins við andlát vegna aldurs eða örorku eru kr. 500.000.
Skilyrði fyrir bótum skv. lið B er að greitt hafi verið samfleytt af hinum látna til félagsins síðustu 5 ár fyrir starfslok.

Ferðakostnaður

Þurfi félagsmaður að leggja í ferðalag til að leita sér lækninga greiðir félagið akstursstyrk sem nemur 33 kr/pr. km.  (Dæmi: AKU – REY – AKU: 380x2x33= 25.080 kr.).  Sé um flugfar að ræða þá greiðir félagið 75% af fargjaldinu.

Hámarksstyrkur vegna ferðakostnaðar er 100.000 kr. á ári.

Gleraugnastyrkur

Sjóðfélagar geta sótt um styrk vegna gleraugnakaupa. Styrkurinn nemur 50% af kostnaði sjóðfélaga, en að hámarki 100.000 kr.  Heimilt er að veita styrk vegna gleraugnakaupa þriðja hvert ár miðað við almanaksár.
Ekki er greitt vegna skemmda á gleraugum sem atvinnuveitanda eða tryggingum ber að greiða.

Sjúkradagpeningar

Sjúkradagpeningar eru ákvarðaðir af stjórn Sjúkrasjóðsins hverju sinni með tilliti til iðgjalda viðkomandi í sjóðinn.

Sjúkradagpeningar til sjóðfélaga sem njóta ítrustu réttinda í sjóðnum geta hæst orðið kr. 555.170 á mánuði, eða 17.909 kr. á dag , í allt að 12 mánuði.

Sótt er um sjúkradagpeninga á “Mínar síður”.

Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókninni.

Læknisvottorð sem tilgreini hvenær og hvers vegna viðkomandi verður óvinnufær.
Vottorð vinnuveitanda um hvenær samningsbundnum launagreiðslum lýkur.
Skattkort.

Greitt er fram að greiðsludegi eða þeim degi sem læknisvottorð segir til um að viðkomandi verði vinnufær, þó ekki fram í tímann. Þeir sem eru frá vinnu lengur en fyrsta umsóknin segir til um geta fengið framhaldsbætur greiddar, en þá þarf í flestum tilfellum að koma með ný læknisvottorð. Sjóðurinn endurgreiðir ekki læknisvottorð.

Heimilt er að greiða dagpeninga vegna áfengismeðferðar, sjá “Sjúkrakostnaður”

Vísað er að öðru leiti í Reglugerð fyrir Styrktarsjóð Félags skipstjórnarmanna.

Sjúkradagpeningar eru staðgreiðsluskattskyldir.