Lög Félags skipstjórnarmanna

LÖG FÉLAGS SKIPSTJÓRNARMANNA

I. KAFLI.    Nafn félagsins, félagssvæði og tilgangur.

1. gr.  Nafn félagsins, varnarþing og félagssvæði

Nafn félagsins er Félag skipstjórnarmanna skammstafað FS.  Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.  Félagssvæði þess er Ísland.

2. gr.  Tilgangur

Tilgangur félagsins er að:

1. Bæta og vernda réttindi og hagsmuni félagsmanna.
2. Semja um kaup og kjör félagsmanna.
3. Starfa á jafnréttisgrundvelli, óháð stjórnmálaflokkum og stefnum þeirra.
4. Gæta að laga- og réttarumhverfi sjávarútvegs og siglinga.
5. Vinna að atvinnumálum og bættu vinnuumhverfi félagsmanna.
6. Efla faglega og félagslega þekkingu og hæfni félagsmanna.
7. Vera málsvari félagsmanna á opinberum vettvangi.
8. Stofna og reka sjóði í þágu félagsmanna.
9. Reka orlofshús og aðra skylda starfsemi.

II. KAFLI.    Félagsmenn

3. gr.    Félagsaðild

Félagsmenn skiptast í fullgilda félaga og auka félaga.

A.  Fullgildur félagi getur hver sá orðið, sem er handhafi gilds atvinnuskírteinis til skipstjórnar samkvæmt íslenskum lögum og starfar samkvæmt kjarasamningi félagsins og/eða  hefur lokið prófum skv. gildandi lögum um skipstjórnarnám.  Fullgildir félagar eru þeir einir sem sótt hafa um aðild að félaginu og greiða félagsgjald í félagið og hafa greitt að lágmarki í sex mánuði.  Félagsaðild fellur niður hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjöld  í sex mánuði. Stjórn félagsins getur veitt undanþágu frá þessu skilyrði í sérstökum undantekningartilfellum.

B.  Aukafélagi er sá, sem gengið hefur í félagið sbr. A-lið 3. gr., en hefur lokið störfum vegna aldurs eða fullrar örorku og verið félagsmaður í a.m.k. fimm ár fyrir starfslok.   Aukafélagar hafa ekki sömu réttindi og skyldur og fullgildir félagar, þeir hafa ekki atkvæðisrétt í stjórnarkjöri, né er varðar kjarasamninga, þeir hafa ekki rétt til dagpeninga, eða annarra styrkja.   Aukafélagar hafa einungis rétt til  dánarbóta og til þess að sækja um orlofsíbúðir og sumarhús félagsins samkvæmt reglum orlofsheimilasjóðs.  Aukafélagar eru gjaldfríir.

Umsókn um félagsaðild í FS skal senda með skriflegum hætti til félagsins.  Stjórn félagsins er  þó heimilt að hafa annan hátt á eftir atvikum.  Félagið kannar hvort umsækjandi uppfylli skilyrði laganna til inngöngu í félagið.  Ef umsækjandi uppfyllir skilyrði aðildar telst hann fullgildur félagi með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja og er hann bundinn af lögum, samþykktum og samningum félagsins frá þeim tíma sem hann telst samþykktur félagi.

Íslenskir skipstjórnarmenn sem starfa á skipum sem eru skráð erlendis geta orðið fullgildir félagar, að uppfylltum skilyrðum þar að lútandi.  Þeir sækja um félagsaðild og greiða samningsbundin gjöld eins og aðrir félagsmenn.

Íslenskir skipstjórnarmenn sem starfa á skipum sem eru skráð erlendis geta sótt um takmarkaða aðild að félaginu með því að greiða eingöngu 0,8% félagsgjald sem veitir þeim rétt á þeirri þjónustu sem félagið veitir og aðgangi að orlofshúsum og íbúðum.   Slík aðild veitir ekki rétt til styrkja eða sjúkradagpeninga.

4. gr.  Úrsögn

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og sendast með sannanlegum hætti til stjórnar félagsins.  Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu, og þar til að vinnustöðvuninni hefur verið aflýst.

5.gr.  Brottvikning

Félagsmaður sem að mati stjórnar félagsins, gerist sekur um brot gegn lögum félagsins, samþykktum þess og kjarasamningum, eða vinnur með öðrum hætti gegn hagsmunum félagsins skal sæta áminningu. Sé um að ræða meiriháttar- eða endurtekin brot er stjórninni heimilt að víkja félagsmanni úr félaginu.

6. gr.  Félagsgjald

Fullgildir félagsmenn greiða félagsgjald sem er 0,8% af heildarlaunum.
Stjórn félagsins getur ákveðið að þak (hámark) verði sett á árlega upphæð félagsgjalds. Ákveði stjórn félagsins þak á félagsgjald, skal upphæð þaksins bundin breytingu vísitölu launa. Í slíkum tilvikum endurgreiðir félagið viðkomandi einstaklingum inngreiðslu umfram þakið eftir að ársuppgjör næstliðins árs hefur farið fram.

III. Kafli.    Réttindi og skyldur félagsmanna

7. gr.  Réttindi og skyldur

Réttindi fullgildra félaga eru:

1. Forgangsréttur til starfa í samræmi við starfsréttindi, kjarasamninga og lög.
2. Málfrelsi, tillögu- og atkvæðaréttur á fundum félagsins og við allsherjaratkvæðagreiðslur
ásamt kjörgengi til  trúnaðarstarfa.
3. Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins samkvæmt reglum þeirra sjóða.
4. Réttur til orlofsaðstöðu samkvæmt reglum um orlofssjóð.
5. Réttur til þátttöku í fræðslustarfi á vegum félagsins.
6. Aðstoð við öflun upplýsinga um launakjör, atvinnuréttindi og atvinnumöguleika.
7. Þjónusta og aðstoð félagsins við að ná fram samnings- og félagsréttindum.

Skyldur fullgildra félaga eru að:
1. Hlíta lögum félagsins, fundarsköpum og fundarsamþykktum og samningum.
2. Greiða félagsgjald.
3. Gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið nema sérstakar ástæður hamli.
4. Tilkynna til félagsins brot á samningum.
5. Vinna af heilindum fyrir félagið.
6. Stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í félagið.

Réttindi aukafélaga eru:
1. Málfrelsi, tillöguréttur á fundum félagsins.
2. Réttur til dánarbóta.
3. Réttur til orlofsaðstöðu samkvæmt reglum um orlofssjóð.                                                                                                                4. Réttur til þátttöku í fræðslustarfi á vegum félagsins.

Skyldur aukafélaga eru:
1. Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum og fundarsamþykktum og samningum.

IV. KAFLI.     Stjórn félagsins – skipan – framboð.

8.gr.  Flokkun fullgildra félagsmanna

Fullgildir félagsmenn, skipstjórnarmenn, eru flokkaðir í félagatali í eftirfarandi flokka eftir því á hvernig skipum eða í hvaða starfsgrein þeir vinna:  1. Fiskimenn.  2.  Farmenn.  3.  Landhelgisgæsla.  4.  Hafnsögumenn.  5.  Aðrir.

9.gr.  Stjórn

Stjórn félagsins skal skipuð níu mönnum, formanni, varaformanni, ritara og sex meðstjórnendum.  Í stjórn félagsins skulu vera fimm fiskimenn, einn farmaður, einn frá Landhelgisgæslunni, einn frá hafnsögumönnum/skipstjórum og einn frá öðrum starfsgreinum, auk átta varamanna sem skulu vera jafnmargir frá hverri starfsgrein og eru í stjórn.  Komist aðalmaður ekki á stjórnarfund, skal varamaður sömu starfsgreinar boðaður.

Formaður er kosinn til fjögurra ára.  Aðrir stjórnarmenn og  varamenn eru kjörnir til fjögurra ára.  Formaður og stjórn eru kosin í rafrænni allsherjar atkvæðagreiðslu.

Á fyrsta fundi stjórnar að loknum kosningum kýs stjórnin í leynilegri atkvæðagreiðslu varaformann og ritara félagsins úr sínum röðum. Nú tekur varaformaður við störfum formanns og kýs þá stjórnin sér nýjan varaformann úr sínum hópi.
Kjörgengi til stjórnarkjörs hafa allir þeir sem eru fullgildir félagsmenn.  Kjörskrá skal lögð fram eigi síðar en 10. janúar á kosningaári og framboðslisti skal lagður fram í síðasta lagi 28. febrúar það ár sem kosning fer fram.
Stjórn skal leggja fyrir aðalfund tillögu um stjórnarlaun fyrir komandi ár.

10.gr.  Framkvæmdastjóri

Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra, hann ber ábyrgð á rekstri félagsins í samræmi við stefnu félagsins og stjórnar.

11.gr.  Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn félagsins skipa formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri. Í forföllum einstakra framkvæmdastjórnarmanna má kalla til einn af meðstjórnendum úr stjórn félagsins sem varamann.  Við afgreiðslu mála sem snerta einstakar starfsgreinar kallar framkvæmdastjórn til stjórnarmann/menn viðkomandi starfsgreinar.

Formaður og framkvæmdastjóri eru talsmenn félagsins út á við.

V. KAFLI. Stjórnarkjör – uppstillinganefnd – kjörstjórn.

12. gr.  Stjórnarkjör – uppstillingarnefnd

Framboði til stjórnarkjörs skal haga þannig:

Uppstillinganefnd sem er fimm manna nefnd skal kosin á aðalfundi þess árs sem næst er kosningaári.  Nefndin kýs sér formann og heldur gerðabók.

Uppstillinganefnd annast uppstillingu manna til formanns og stjórnar eftir því sem við á.  Uppstillingarnefnd skal í janúarmánuði það ár sem kosið er, senda félagsmönnum tölvupóst og óska eftir framboðum til formanns og í stjórn, og auglýsa á heimasíðu félagsins eftir frambjóðendum.  Nefndin skal gæta þess sérstaklega að á listann veljist félagar úr sem flestum starfsgreinum innan félagsins, og að búseta stjórnarmanna sé sem dreifðust. Nefndin skal taka sanngjarnt tillit til ábendinga sem henni kunna að berast frá félagsmönnum og leitast við að skapa sem víðtækasta einingu um listann.

Uppstillinganefnd skal skila tillögu sinni að listanum, þannig uppsettum að þeir sem eru í framboði til formanns séu efstir og aðrir í stafrófsröð innan hverrar starfsgreinar þar á eftir. Uppstillinganefnd skal skila tillögu sinni til kjörstjórnar eigi síðar en 28. febrúar það ár sem kosning fer fram.  Listinn skal birtur á heimasíðu félagsins og liggja frammi á skrifstofu félagsins ásamt kjörskrá og vera félögum til sýnis.

Kjörgengir til stjórnar eru fullgildir félagsmenn sem hafa greitt hlutfall af launum í félagsgjald síðustu 6  mánuði áður en uppstillingarnefnd lýkur störfum.  Aukafélagar hafa ekki atkvæðisrétt sbr. 3.gr. B lið.   Stjórnarmaður sem missir kjörgengi á kjörtímabili sínu, getur haldið stjórnarsæti sínu út kjörtímabilið.

13. gr.  Kjörstjórn

Kjörstjórn skipuð þremur mönnum skal kosin til fjögurra ára á aðalfundi það ár sem formannskjöri er lýst.  Kjörstjórn sér um framkvæmd stjórnarkjörs og annarra kosninga og atkvæðagreiðslna í félaginu.  Kjörstjórn velur sér formann úr sínum hópi. Kjörstjórn heldur gerðabók.
Kjörstjórn lætur útbúa kjörseðla og önnur kjörgögn og sér um að kjörseðill ásamt upplýsingum um hvernig kosning fer fram sé sendur sérhverjum atkvæðisbærum félagsmanni. Kjörstjórn úrskurðar einnig um réttmæti kjörskrár, telur atkvæði að lokinni kosningu og úrskurðar um vafaatkvæði.

14. gr.  Kosning formanns og stjórnar

Kosning skal vera rafræn og skal hefjast eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund.  Kosningu skal lokið kl. 15. daginn fyrir aðalfund.
Við formannskjör er sá frambjóðenda réttkjörinn sem flest atkvæði hlýtur.
Við kjör stjórnarmanna og varamanna skal stilla frambjóðendum upp í stafrófsröð innan hverrar starfsgreinar.  Merkja skal við allt að 8 nöfn samtals á atkvæðaseðlinum með krossi og raðast aðalstjórnarmenn og varamenn eftir atkvæðamagni innan hverrar starfsgreinar.

Falli atkvæði jöfn varpar kjörstjórn hlutkesti, sem ræður úrslitum. Formaður kjörstjórnar, eða annar kjörstjórnarmaður lýsir stjórnarkjöri á aðalfundi.

VI. KAFLI.    Endurskoðandi – endurskoðun –  reikningsár.

15. gr.   Endurskoðandi, endurskoðun, reikningsár

Stjórn félagsins er skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins.  Reikningar skulu lagðir fyrir aðalfund áritaðir af stjórn félagsins og löggiltum endurskoðanda.  Reikningar félagsins skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund.

Á aðalfundi það ár sem stjórnarkjöri er lýst skal kosið um löggiltan endurskoðanda til fjögurra ára.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

VII. Kafli. Stjórn félagsins – verkefni – starfshættir.

16. gr.  Stjórn, formaður, framkvæmdastjórn

Stjórn félagsins fer með framkvæmdavald af hálfu félagsins en lýtur þó fyrirmælum aðal- og félagsfunda svo og ákvarðana sem teknar eru með allsherjaratkvæðagreiðslu. Stjórnin gætir þess að lögum og samþykktum sé fylgt og að kjarasamningar þess séu haldnir.  Hún gerir fjárhagsáætlun sem lögð skal fyrir aðalfund.  Stjórnin ákveður starfskjör formanns og framkvæmdastjóra.

Formaður FS kveður stjórnina saman til fundar og stýrir fundum hennar.  Stjórnarfundur er lögmætur þegar a.m.k. fimm stjórnarmenn eru mættir á stjórnarfund.  Framkvæmdastjórn sbr. 11. grein fer með umboð stjórnar milli stjórnarfunda.

Framkvæmdastjóri að fengnu samþykki stjórnar ræður félaginu starfsmenn eftir þörfum, semur um launakjör þeirra og setur þeim starfsreglur.

17. gr.  Fjármál

Stjórn félagsins er skylt að ávaxta sjóði félagsins sem best.  Öll skjöl og skilríki, er snerta eignir þess, skal geyma á tryggum stað, er starfsmenn félagsins ákveða í samráði við stjórnina. Skylt er að varðveita öll bréf send og móttekin og önnur skjöl og skilríki er varða félagið og störf þess. Heimilt er að varðveita öll gögn félagsins með rafrænum hætti.

VIII. KAFLI.   Aðalfundur – félagsfundur.

18. gr.  Aðalfundur

Aðalfundur FS fer með æðsta vald í öllum málum félagsins. Aðalfund skal halda fyrir 30. júní hvert ár.  Til aðalfundar skal boða á heimasíðu félagsins með dagskrá með a.m.k. 21. dags fyrirvara og með fjölmiðlaauglýsingu í aðdraganda fundarins.  Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á næst liðnu ári.
2. Endurskoðaðir reikningar félagsins og sjóða þess lagðir fram og bornir undir atkvæði.
3. Kjöri formanns og stjórnar lýst eða kosin uppstillinganefnd sbr. 12. grein.
4. Kosning kjörstjórnar sbr. 13.gr. og löggilts endurskoðanda sbr. 15.gr.
5. Kjör fulltrúa félagsins í stjórnir ráð og nefndir eftir því sem við á.
6.  Ákvörðun stjórnarlauna skv. 9. gr.
7. Önnur mál.

19. gr. Félagsfundir

Félagsfundi skal halda svo oft sem stjórnin ákveður. Til félagsfundar skal stjórninni skylt að boða, ef áríðandi málefni eru fyrir hendi, eða ef minnst fimm félagar óska þess og tilgreina fundarefni. Til félagsfundar skal boðað á heimasíðu félagsins, með tölvupósti, með auglýsingu í dagblaði og/eða útvarpi, eða bréflega til félagsmanna. Félagsfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.

20. gr.  Fundarstjórn

Formaður setur aðal- og félagsfundi og stjórnar kosningu fundarstjóra. Ennfremur skal kjósa fundarritara, sem ritar fundargerð.

IX. KAFLI.    Ýmis ákvæði

21. gr.  Sjóðir félagsins

Sjóðir félagsins eru:  Félagssjóður, Sjúkra- og styrktarsjóður, Orlofsheimilasjóður, Endurmenntunarsjóður og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að verða.  Sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu starfa samkvæmt reglugerðum staðfestum af aðalfundi. Í reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk hans, hverjar tekjur hans eigi að vera, hvernig verja megi fé hans, hvernig stjórn hans skuli skipuð og annað er sjóðinn varðar. Félagssjóður greiðir kostnað af almennri starfsemi félagsins.  Aðrir sjóðir innan félagsins greiði félagssjóði umsýslugjald sem stjórn félagsins ákveður.

22. gr.    Fundarsköp

Öllum fundum skal stjórna eftir lögum þessum og almennum fundarsköpum.  Á fundum í félaginu og allsherjaratkvæðagreiðslum ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða úrslitum, nema lög þessi eða landslög ákveði annað.  Auðir og ógildir seðlar teljast ekki til greiddra atkvæða.

23. gr.  Birting upplýsinga

Niðurstöður í málefnum teknum fyrir á aðal- og félagsfundum skulu birtar á heimasíðu félagsins.
Lög félagsins og gildandi kjarasamninga skal birta á heimasíðu félagsins.

X. KAFLI.    Lagabreytingar.

24. gr.  Lagabreytingar

Lögum þessum má breyta á  á aðalfundi enda hafi fyrirhugaðra lagabreytinga verið getið í fundarboði og þarf a.m.k. samþykki 2/3 greiddra atkvæða til að þær hljóti samþykki. Tillögur til breytinga á lögum þessum fram bornar af öðrum en stjórn félagsins skulu hafa borist stjórninni að minnsta kosti tveimur mánuðum fyrir aðalfund.

Þannig breytt samþykkt á aðalfundi Félags skipstjórnarmanna 04. júní 2021