Leiðari úr 3. tbl Víkingsins 2017

Hrunið

Horft um öxl
Þegar horft er yfir farinn veg síðustu árin þá vakna  spurningar tengdar sjávarútveginum sem maður vildi gjarnan velta upp.  Spyrja má, höfum við lært eitthvað af framgangi en um leið því framgangsleysi, sem óumdeilanlega var við lýði innan greinarinnar svo árum skipti í kjölfar hrunsins?

Þar á ég við þá staðreynd að á sama tíma og þjóðin upplifði til sjávarins eitt lengsta og öflugasta vaxtaskeið sem átt hefur sér stað í sögu veiða og vinnslu, þá  hvorki gekk né rak hvað varðar það sem kalla mætti eðlileg samvinnu og samstarf milli samtaka sjómanna og útgerðarmanna.

Helstu orsakir                                                                         
Nokkrir þætti vega þar þyngst.  Endalaus bið eftir nýju frumvarpi um stjórn fiskveiða þar sem lausn er reyndar því miður engu nær en verið hefur árum saman.  Megin rök útgerðarmanna fyrir því að hvorki væri hægt að endurnýja fiskiskipaflotann né kjarasamninga voru að ekkert væri fast í hendi hvað varðaði framtíð útgerðarinnar og of mikil áhætta fylgdi þar af leiðandi stórum fjárfestingum auk þess sem veiðgjaldið væri svo íþyngjandi að sjómenn yrðu að taka þátt í því með útgerðinni. Sjómannamegin horfði málið þannig við að aldrei hefur verið ljáð máls á þátttöku sjómanna í veiðigjöldum, enda hafa stjórnvöld lagt áherslu á að um „umframhagnað“ væri að ræða sem ekki ætti að skerða kjör sjómanna.

Annað sem klárlega hafði áhrif var, að á þessum tíma var afkoma fiskimanna góð og í mörgum tilvikum mjög góð og þar af leiðandi mætu menn stöðuna í þá veru að betra væri að þyggja laun eftir gildandi samningi, þótt útrunninn væri, fremur en að fara í samningaviðræður þar sem óbilgjarnar kjaraskerðinarkröfur viðsemjenda stóðu óhaggaðar.  Það er því ólíklegt að meirihluta vilji hefði verið meðal stéttarinnar til að fara harðar aðgerðir á sama tíma og afkoman var betri en þekkst hafði um langa hríð.

Fráleit staða
Því má segja að algjör pattstaða hafi af þessum sökum verið milli samtak útgerða og sjómanna sem leiddi til þess að sjómenn fengu í sex  ár greidd laun samkvæmt kjarasamningi sem rann út þann 1. Janúar 2011 eða allt þar til  skipstjórnarmenn samþykktu nýjar kjarasamning í atkvæðagreiðslu sem lauk þann 8. ágúst 2016 . Undirmenn kolfelldu þann samning og vélstjórar kusu ekki um hann af ástæðum sem undirritaður kann ekki að útskýra. Allir kunna skil á framhaldinu þar sem við tók lengsta sjómannaverkfall Íslandssögunnar. Því  lauk að endingu með kjarasamningi 20. Febrúar 2017.

Höfum við eitthvað lært ?
Árið 2008 voru útflutningstekjur sjávarútvegsins 171 miljarður kr. en nettó skuldir 430 miljarðar. Fimm árum síðar höfðu útflutningtekjur hækkað jafnt og þétt og voru árið 2013  272 miljarðar.
Á sama tíma höfðu nettó skuldir lækkað niður fyrir útfluttningstekjur ársins og voru 242 miljarðar í lok árs. Þessi gríðarlegi viðsnúningur í afkomu leiddi til þess að fjöldi útgerða hóf að íhuga og í framhaldinu að ráðast  í endurnýjun á skipaflota sínum og landvinnslu þrátt fyrir margítrekaðar yfirlýsingar um að slíkt væri of áhættusamt og engar forsendur til kjarasamninga vegna getuleysis stjórnmálamanna til að ná saman um ný lög um stjórnkerfi fiskveiða sem tryggði rekstraröryggi greinarinnar til lengri tima.

Seint og um síðir, þegar sest var að samningaborði,  var farið að halla undan fæti, löngu góðæristimabili í sjávarútvegi að ljúka og  ferðaþjónustan farin að hafa meiri áhrif á hagkerfið en nokkur önnur atvinnugrein. Við bættist neikvæð þróun og erfiðar aðstæður á erlendum mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Þannig voru aðstæður greinarinnar þegar loks stóð til að fara að semja, í það minnsta fimm árum of seint.

Megin lærdómur af  þessu ferli er sá að það er fullkomlega óásættanlegt að endurnýjun kjarasamnings geti dregist á langinn svo árum skipti. Engri atvinnugrein ætti að lýðast slík framferði. Lagaumhvefinu verður að breyta á þann veg að innan ákveðins tímaramma, frá lokum gildistíma eldri samnings, verði  deiluaðilar að ná saman. Að öðrum kosti komi til kasta ríkissáttasemjara sem fengi mun víðtækari heimildir en til staðar er í dag til að knýja fram niðurstöðu.  Horfa mætti í því samhengi til norðurlandanna þar sem margra ára dráttur á endurnýjun kjarasamnings í mikilvægri undirstöðuatvinnugrein gæt hreinlega ekki átt sér stað.

Árni Bjarnason

Félag skipstjórnarmanna notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á skipstjorn.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur