Pistill formanns

Pistill formanns,

Kæru félagsmenn.  Frá því ég tók við formennsku í félaginu um áramótin hefur verið í nægu að snúast, ég mun nú rekja það helsta í stuttu máli hér á eftir.  Ég mun af og til senda frá mér svona pistla um það sem helst er á döfinni hjá félaginu.   Áður en lengra er haldið, óska ég eftir góðu samstarfi við ykkur hér eftir sem hingað til, ég bið ykkur um að heyra í mér eða senda mér tölvupóst um hvaðeina sem ykkur finnst að betur megi fara.

Eins og þið vitið hafa starfsmenn á skrifstofu félagsins verið fjórir frá upphafi, en frá áramótum erum við þrjú.   Á stjórnarfundi í félaginu þann 9. janúar sl. fól stjórnin mér að skoða hvernig mönnun hentaði félaginu best.  Ég gef mér einhverjar vikur til að skoða það og kem svo með tillögu til stjórnarinnar.

Staða kjarasamninga:

Fiskimenn – Þann 5. janúar var fundur hjá Sáttasemjara í stóru samninganefnd sjómanna á fiskiskipum, þar komu saman fulltrúar allra sjómannasamtakanna ásamt fulltrúum SFS.  Aðilar beggja megin borðs voru sammála um að nóg væri rætt, gera þyrfti úrslita tilraun um hvort við værum yfirhöfuð að fara að ná saman um kjarasamning, eða hvort lýsa ætti samningaviðræður árangurslausar.   Sáttasemjari lagði til að tveir frá hvorum aðila settust niður til þess að taka saman niðurstöður viðræðna og gera úrslita tilraun til að sjá hvort hægt væri að ná saman.  Þeirri vinnu lýkur nú í vikunni og hefur samningafundur í stóru nefndinni verið boðaður næstkomandi fimmtudag 26. janúar.  Beggja megin borðs vonast menn til að við náum saman, ég leyfi mér að vera bjartsýnn á að það takist.

Farmenn – Kjarasamningar farmanna eru lausir síðan í nóvember 2022, samningaviðræður eru í gangi, við Páll Ægir höfum fundað með samninganefnd farmanna og við erum í sambandi við skipafélögin Eimskip og Samskip, við höfum einnig verið í sambandi við Samtök atvinnulífsins, stefnum að því að klára endurnýjun samnings fljótlega.

Ferðaþjónustan – Í byrjun árs áttum við Páll Ægir fund með tveimur skipstjórnarmönnum sem starfa á útsýnisbátum í ferðaþjónstu í hvalaskoðun og norðurljósasiglingum vegna kjarasamnings skipstjórnarmanna í ferðaþjónustu sem rann út þann 1. nóvember sl.  Þessi samningur er sameiginlegur með VM, við höfum í samstarfi við VM óskað eftir því að þessi samningur verði framlengdur til febrúar 2024, með álíka launahækkunum og samið hefur verið um á almenna markaðnum.  Við væntum svars frá Samtökum atvinnulífsins fljótlega.

Landhelgisgæslan og Hafrannsóknastofnun –  Í síðustu viku var undirrituð viðræðuáætlun við ríkið, þetta er almennt plagg sem lögum samkvæmt ber að undirrita 10 vikum áður en kjarasamningar þessir renna út þann 31. mars 2023.   Saminganefnd starfsmanna hjá LHG hefur fundað með Páli Ægi og undirbúningur fyrir viðræður sem hefjast á næstunni er í gangi.  Við munum setjast niður með fulltrúum Hafró á næstunni og vonandi fljótlega með samninganefnd ríkisins.

Hafnarstarfsmenn á kjarasamningi við Samband Íslenskra sveitarfélaga.   Kjarasamningur er í gildi til 30. september 2023, viðræður um endurnýjun munu hefjast í ágúst næstkomandi, en samninganefnd verður kölluð saman fyrir vorið.  ATH.   ný launatafla tekur gildi nú um áramótin, vinna er í gangi varðandi hana, fundur verður á mánudag með SÍS.

Hafnarstarfsmenn hjá Faxaflóahöfnum.  Félagið er með sameiginlegan kjarasamning með VM við Faxaflóahafnir, sá samningur gildir til 30. september 2023.  Ég reikna með því að viðræður um endurnýjun hans hefjist í ágúst í síðasta lagi.  Ný launatafla tók gildi 1. janúar 2023.

Dýpkunarskip  –  Björgun ehf.,  kjarasamningurinn rann út 1. nóvember 2022, vinna er í gangi að endurnýja hann.

Fiskeldi –  Við stefnum að því að gera kjarasamning fyrir skipstjórnarmenn sem starfa hjá fiskeldis fyrirtækjum fljótlega, sú vinna er í gangi.

 

Ég minni á að inni á „Mínar síður“ á heimasíðu félagsins er hægt að nálgast fundargerðir félagsins sem og stjórnar.  Einnig er hægt að skoða blaðið okkar skipstjórnarmanna Víking á heimasíðunni hér

Ég sit í Úrskurðarnefnd vegna fiskverðsákvörðunar, sú nefnd fundar í byrjun hvers mánaðar, þar er tekin ákvörðun um fiskverð í viðskiptum skyldra aðila, fyrsti fundur ársins var 3. janúar sl. sjá fiskverðsákvörðun  hér.    Ég sit einnig í stjórn Sjómannadagsráðs sem fundar venjulega vikulega á þriðjudögum, sjá heimasíðu SDR.

Um áramótin voru mönnunar- og undanþágunefndir lagðar niður og verkefni þeirra færð til Samgöngustofu.  Fulltrúar skipstjórnarmanna og vélstjóra hafa alltaf haft fulltrúa í þessum nefndum þar til nú.  Áður en Samgöngustofa veitir undanþágu mun verða haft samband við félagið til að athuga hvort við höfum réttindamenn á skrá sem leita atvinnu.  Eins og þið vitið, þá leggur félagið mikla áherslu á að allar stöður í flotanum séu mannaðar réttindamönnum, því viljum við benda þeim sem leita eftir plássi á að skrá nöfn sín inná heimasíðuna undir flipanum “Atvinna” en  þeir sem ekki vilja að nafn sitt sé birt þar geta haft samband við okkur símleiðis eða sent okkur tölvupóst með sömu upplýsingum og beðið er um á heimasíðunni.  Við munum svo láta ykkur vita þannig að þið getið haft samband við viðkomandi útgerð ef áhugi er á starfinu.  Við hvetjum ykkur til að nýta þessa þjónustu Félagsins.

Í vikunni sat ég fund í samráðsnefnd um Auðlindina okkar, þar voru kynntar bráðabirgðatillögur nefndarinnar sem sjá má á heimasíðu Matvælaráðuneytisins hér      nú eru tillögurnar komnar inn á Samráðsgáttina þar sem öllum gefst kostur á að koma með athugasemdir eða sínar skoðanir, sjá hér   Tillögurnar eru mjög yfirgripsmiklar og snerta flesta fleti sjávarútvegs.   Ég hvet menn til að senda mér tölvupóst og/eða heyra í mér, en ég hyggst skrifa umsögn fyrir hönd félagsins.

Ég skilaði sl. föstudag inn umsögn á Samráðsgáttina um breytingu á reglugerð um heilbrigði „Fiskara“   en ég hef sagt að ég muni ekki taka mér þetta orð í munn.   Ég átti samtöl við lögfræðing hjá Samgöngustofu og eins í Matvælaráðuneytinu, þar sem ég tjáði andstöðu okkar við þetta orð og að við myndum ekki nota það.   Ég hef óskað eftir því að orðið verði afmáð úr lögum um áhafnir skipa og ekki tekið upp í umræddri reglugerð.  Umsögnina og aðrar umsagnir má sjá hér.

Í vikunni hitti ég Skólameistara Tækniskólans Hildi Ingvarsdóttur, ég tjáði henni áhyggjur félagsins af Stýrimannaskólanum og óskaði eftir fundi með henni og Víglundi Laxdal skólastjóra Véltækniskólans og Skipstjórnarskólans.  Við Páll Ægir eigum fund með þeim mánudaginn 30. janúar.

Með bestu kveðju,

Árni Sverrisson

Félag skipstjórnarmanna notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á skipstjorn.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur