Af vettvangi dagsins frá formanni.

Það hefur ekki viðrað vel til veiða eða siglinga undanfarið, þær koma á færibandi lægðirnar með mikinn vindstyrk sem veldur því að skipstjórnarmenn þurfa svo sannarlega að spá í hvar eða hvort skal halda til veiða eða hvernig sigla. Mismiklar frátafir eru frá veiðum og öðrum störfum sem sjómenn sinna. Við sjómenn vitum hvað við eigum mikið undir veðrinu, það er engin leið að lýsa því í orðum hvernig aðstæður geta orðið þar sem mikill vindur, straumar, að ég tali nú ekki um ísingu fara saman. Það hefur mikil bylting orðið á skipunum okkar til batnaðar, þau eru stærri og betri sjóskip, en veður fara líka versnandi og því allrar aðgátar alltaf þörf.

Stjórn félagsins fundar alltaf fyrsta fimmtudag hvers mánaðar, frá áramótum hafa verið haldnir tveir stjórnarfundir. Fundargerðir stjórnar geta virkir félagsmenn séð inni á heimasíðu félagsins „Mínar síður“.

Kjarasamningar:  Af kjarasamningum er það helst að frétta, að kjarasamningur skipstjórnarmanna hjá sveitarfélögunum var samþykktur þann 3. febrúar sl. Samningar náðust á öðrum fundi hjá sáttasemjara, en áður höfðu verið haldnir fjölmargir árangurslitlir fundir. Við erum í samningaviðræðum við ríkið um kjarasamning Landhelgisgæslu Íslands, Hafrannsóknastofnun og Björgun. Við væntum þess að ljúka þessum samningum á allra næstu vikum.

Öryggisnefnd:  Í kjarasamningi fiskimanna var ákveðið að setja í gang öryggisnefnd skipaða fulltrúum frá sjómannafélögunum og SFS, í síðustu viku var haldinn fundur í nefndinni þar sem erindi fluttu Jón Pétursson og Óli Fjalar Böðvarsson frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa (sjóslysa), Þorsteinn Þorkelsson frá Öryggis og fræðsludeild Samgöngustofu, Gísli Níls Einarsson frá Öryggisstjórnun sem er með Öldu appið og Bogi Þorsteinsson frá Slysavarnaskóla sjómanna. Á þessum fundi var fjallað um mikilvægi skráningar á slysum og næstum því slysum, hvernig nota megi gögnin til að greina orsakir slysa og óhappa, hvernig við getum lært af þeim og reynt að koma í veg fyrir þau. Staðan á gagnagrunninum og appinu „Atvik sjómenn“ var kynnt, verið er að vinna í því að bæta aðgengi og virkni. Rætt var um losunarbúnað björgunarbáta, nauðsyn endurskoðunar á reglum þar sem núverandi búnaður skilar ekki alltaf björgunarbátum upp á yfirborð. Rætt um hvort skylda ætti notkun björgunarvesta með neyðarsendi við vinnu á dekki. Ýmislegt fleira var rætt og næsti fundur ákveðinn í maí.

Samgöngustofa: Í síðustu viku sóttum við Páll Ægir fjölmennan fund hjá Samöngustofu, þar sem fulltrúi frá Hammer í Svíþjóð flutti kynningu á sleppibúnaði björgunarbáta. Þessi búnaður er einfaldur, hann sker á línu sem heldur björgunarbát í sæti sínu þannig að báturinn losnar og flýtur upp þegar búnaðurinn er kominn á 1,5 meters dýpi, einnig er hægt að kaupa búnað sem sleppir björgunarbátnum sjálfvirkt ef báturinn/skipið hallar 90 gráður í 1,5 til 2,0 sekúntur.  Athugið að þessi búnaður gerir ekkert annað en að losa björgunarbátinn, þetta er ekki eins og Sigmund eða Olsen búnaðurinn, enda helsti gallinn við þann búnað að hann sleppti ekki fyrr en á 6 metra dýpi ef hann þá sleppir!  Hægt er að skoða Hammer á slóðinni  cmhammar.com

       

Nordisk navigatørkongress:  Í síðustu viku sótti ég fund í með félögum okkar í norrænu skipstjórnarfélögunum þar sem ég gegni formennsku næstu tvö ár. Fundirnir eru haldnir reglulega í Danmörku, Noregi, Finnlandi, Svíþjóð, Íslandi og Færeyjum. Á fundunum er fjallað um það sem efst er á baugi í löndunum, kjaramál og önnur hagsmunamál sem máli skipta. Fundurinn að þessu sinni var haldinn í Haugasundi í Noregi. Hagsmunamálin eru lík á milli landanna, meðal annars mönnunarmál, en öll löndin glíma við hækkandi meðalaldur sjómanna og erfiðleika við að fá ungt fólk í stéttina. Eins og menn vita er orðið algengt á íslandi að menn vinna tveir um hverja stöðu, en sumstaðar erlendis eru orðnir þrír um hverja stöðu, menn vinna í viku og eiga frí í tvær vikur. Þetta á ennþá við um ferjur mestmegnis, en sýnir hver þróunin er. Í þróun er búnaður til að sigla skipum mannlaust, en þrjú skip sigla milli hafna í Noregi með tvo í áhöfn, þau geta siglt mannlaust, en menn treysta búnaðinum ekki alveg ennþá. Þróunin er hröð í allskonar sjálfvirkni með gervigreind til að stjórna skipum á siglingu og í og úr höfnum.

Matvælaráðuneytið: Í janúar áttum við Jóna Brynja fund með Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra. Ég óskaði eftir þessum fundi til að kynna áherslumál félagsins, við ræddum ýmis mál, svo sem ábyrgð skipstjóra í tengslum við fyrirhugaða sviptingu á veiðileyfi Vestmannaeyjar VE, vegna þess að vörubílstjóri fór af stað með afla frá Neskaupsstað án þess að hann væri viktaður. Sem betur fer var málinu frestað, við höfum óskað eftir því að það verði fellt niður. Við ræddum strandveiðar, fórum yfir aukningu sem orðið hefur á veiðiheimildum til strandveiða á sama tíma sem veiðiheimildir hafa minnkað á aflamarksskipum, auk þess að verð á strandveiðiafla er alltaf lægra á fiskmörkuðum en verð á fiski veiddum í botvörpu og önnur veiðarfæri. Bentum á að strandveiðarnar lækka þannig verð á fiski til okkar manna, þar sem það miðast meðal annars við þriggja mánaða vegið meðalverð á fiskmörkuðum. Við ræddum afstöðu félagsins til hvalveiða, áhyggjur okkar af fjölgun hvala við landið, við teldum að fjölgunin væri farin að hafa áhrif á nytjastofna okkar td. loðnuna. Þá ræddum við hugmyndina að bættu verkferli varðandi ráðgjöf um veiðar úr nytjastofnum okkar. Hún snýst um að setja á stofn hóp skipstjórnarmanna og annarra hagsmunaaðila ásamt ráðherra eða fulltrúa hans, þessi hópur fengi ráðgjöf Hafró til umsagnar og skoðunar áður en hún færi til ráðherra. Í mörg undanfarin ár hafa ráðherrar farið að ráðgjöf Hafró án þess að taka neitt mark á gagnrýni okkar eða annarra. Um þetta má lesa í leiðara mínum í 2.tbl. Víkingsins á heimasíðu félagsins Félag skipstjórnarmanna – skipstjorn.is

Samherji:  Ég sótti í lok janúar fund sem Samherji hélt norður á Akureyri fyrir fulltrúa stéttarfélaga, sveitarfélaga og fyrirtækja sem þjónusta fiskvinnslufyrirtæki við Eyjafjörð. Á þessum fundi var farið yfir töluleg gögn um hver áhrif strandveiða eru á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Þarna var rætt um gæði strandveiðiafla, hitastig í fiskinum, aukinn útflutning á heilum fiski á strandveiðitímabilinu. Hvaða áhrif minni kvóti hefði á rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna. Það eru ef til vill ekki allir sem gera sér grein fyrir því að í landvinnslunni hjá Samherja vinna 370 manns, og sjómenn eru 183. Mér þótti merkilegt að það féllu aðeins þrír vinnudagar niður í fiskvinnslum þeirra á Dalvík og Akureyri á árinu 2024. Á Íslandi er það þannig að fiskvinnslur verða að greiða starfsfólkinu laun þó enginn sé aflinn til vinnslu. Ólíkt því sem gengur og gerist í nágrannalöndunum, þar sem fólkið er launalaust í húsunum ef enginn er fiskurinn. Þetta var fróðlegur fundur þar sem talað var um staðreyndir út frá gögnum.

Strandveiði: Það hefur eðlilega verið mikil umræða um strandveiði frá því ný ríkisstjórn tók við, þar sem stjórnin tilkynnti að leyfðar yrðu veiðar í 48 daga. Það er skoðun mín og félagsins að um strandveiðar verði að gilda sömu reglur eins og gilda um aðra, það megi ekki taka afla af öðrum til að setja í strandveiðikerfið. M.ö.o. það verður að vera þak á aflaheimildum til strandveiða. Nú eru tekin 5,3% af öllum fisktegunum áður en aflaheimildum er ráðstafað til skipa, þessum 5,3% er deilt út í byggðakvóta, línuívilnun, skel og rækjubætur og strandveiðar. Ef auka á í strandveiðar verður það ekki gert öðruvísi en að taka það af öðrum, það er óásættanlegt. Ég bendi á skrif mín í Fiskifréttum til dæmis og skrif Pálma Gauta varaformanns á 200 mílum á mbl. og sameiginleg skrif okkar Pálma á 200 mílum í janúar sl. auk fjölda annarra sem skrifað hafa um málið. Þess ber að geta að starfsmaður okkar Jóna Brynja Birkisdóttir og ég höfum skoðað töluleg gögn frá fiskistofu, fiskmörkuðum, hagstofunni, ríkisskattstjóra og fleirum, það er engin leið að réttlæta aukningu strandveiða út frá rekstrarlegum skilyrðum.

Sjá grein í fiskifréttum hér

Innviðaráðuneytið: Við Páll Ægir áttum í vikunni fund með Eyjólfi Ármannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Ég óskaði eftir þessum fundi til að ræða við hann málefni sjávarútvegs og siglinga. Eitt málanna sem félagið hefur barist fyrir undanfarin ár er að koma á Íslensk alþjóðlegri skipaskrá, þannig að Íslensk millilandaskip sigli undir íslenskum fána. Í dag eru aðeins sex millilandaskip sem eru mönnuð íslendingum, skipin eru skráð í Færeyjum. Íslendingarnir vinna hjá Færeyskum dótturfyrirtækjum Eimskip og Samskip. Ástæðan er að Íslensk stjórnvöld hafa ekki lögleitt skipaskrá sem er samkeppnishæf við erlendar skipaskrár, þessu viljum við að stjórnvöld breyti. Við erum siglingaþjóð í miðju Atlantshafi, skipin okkar eiga að sigla á íslenskum fána.  Ef til stríðsátaka kemur, þá geta önnur ríki tekið yfir þau skip sem sigla á þeirra þjóðfána, við eigum ekkert skip á íslenskum fána. Þetta er með öðrum orðum þjóðaröryggismál. Við ræddum einnig við Eyjólf nauðsyn þess að skipa í og efla Fagráð um siglingar, sem er fjórtán manna ráð sem er ráðherra til ráðgjafar um hvaðeina sem snertir öruggar siglingar á hafsvæðinu kringum ísland.

Húsnæðismál félagsins:  Félagið festi í janúar kaup á nýju sumarhúsi í Skorradal eins og komið hefur fram. Svo ákvað stjórn félagsins að skoða sölu á þremur elstu íbúðum félagsins í Reykjavík, í Ásholti og Neðstaleiti, og kaupa fjórar nýjar íbúðir helst í sama húsi. Það mál er í skoðun þessa dagana.

Árni Sverrisson formaður.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Félag skipstjórnarmanna notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á skipstjorn.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur