Sl. föstudag 12. september sl. var haldinn árlegur haustfundur Félags skipstjórnarmanna og Verðandi, félags skipstjórnarmanna í Vestmannaeyjum. Á fundinum fór ég yfir þau mál sem eru efst á baugi um þessar mundir, svo sem áform stjórnavalda um að hætta að greiða jöfnunarframlag til lífeyrissjóða vegna örorkubyrði, en ég hef mótmælt því kröftuglega fyrir hönd félagsins. Áform stjórnvalda um að taka af hjónum heimild til samsköttunar, því hef ég og mun mótmæla áfram. Farið var yfir mögulegar afleiðingar af hækkun veiðigjalda, á fiskverð ofl. Þá fórum við Jóna Brynja Birkisdóttir yfir málefni Verðlagsstofu skiptaverðs (VSS), fiskverðsmál og fleira. Páll Ægir Pétursson kynnti fyrir okkur stöðu menntamála, málefni Fagráðs um siglingar, Þjóðaröryggisráðs ofl. Fundinn sátu 10 menn úr stjórn og varastjórn FS, fjórir menn úr stjórn Verðandi í Vestmannaeyjum auk tveggja starfsmanna FS.
Í framhaldi af sameiginlega fundinum með Verðandi var haldinn stjórnarfundur í Félagi skipstjórnarmanna, mættir voru 10 af 18 mönnum úr stjórn og varastjórn félagsins.
Á stjórnarfundinum þann 12. september sl. voru eftirfarandi ákvarðanir teknar í stjórn FS:
- Ákveðið að selja öll fjögur sumarhús félagsins í landi Snorrastaða nærri Laugarvatni, þ.e. Ægisból, Sæból, Hrannarból og Laugarból.
- Ákveðið að selja sumarhús félagsins í Brekkuskógi.
- Ákveðið að kaupa tvö ný eða nýleg sumarhús á svæðinu Öndverðarnes – Laugarvatn.
- Ákveðið að kaupa eitt nýlegt hús bæta við einu sumarhúsi í Skorradal.
- Ákveðið að selja íbúð félagsins við Strandgötu á Akureyri.
- Ákveðið að bæta við einu sumarhúsi í nágrenni Akureyrar.
Þessar ákvarðanir eru ekki teknar í fljótræði, það hafa verið miklar umræður innan stjórnar félagsins um orlofshúsin og íbúðirnar. Það er í gangi endurnýjun á eldri orlofskostum og samræming á aðstöðu þannig að við séum með sambærilegar góðar eignir í útleigu á hverjum tíma. Í því samhengi má geta þess að síðastliðið vor tókum við í notkun fjórar nýjar íbúðir í Borgartúni 26 í Reykjavík og í árslok 2024 tvær nýjar íbúðir í Austurbrú 10 á Akureyri.
Niðurstaðan er eins og áður er getið að selja bústaðina á Laugarvatni og í Brekkuskógi, og íbúð félagsins við Strandgötu á Akureyri og kaupa nýleg hús í staðinn.
Árni Sverrisson formaður