Yfirlýsing frá stjórn Félags skipstjórnarmanna
Á stjórnarfundi í félaginu sem haldinn var föstudaginn 27.nóvember var eftirfarandi samþykkt af meirihluta stjórnar vegna fjölmiðlaumræðu um mál Júlíusar Geirmundssonar.
* Stjórnin leggur ekki mat á hið fordæmalausa mál sem gerðist um borð í Júlíusi Geirmundssyni og bíður niðurstöðu frá þar til bærum yfirvöldum. Öllum má vera ljóst að það geisar heimsfaraldur sem enginn okkar hefur áður upplifað.
* Stjórnin leggur mikla áherslu á að það sem felst í kæru, er eingöngu beiðni um rannsókn á máli eða tiltekinni háttsemi. Með því að kæra málið og fara fram á sjópróf var aðeins eitt markmið, það var að fá fram sannleikann í málinu.
* Stjórnin harmar misskilning og rangtúlkanir í fjölmiðlum og samskiptamiðlum sem hafa átt sér stað í málinu. Stjórn og starfsmenn félagsins eiga enga aðkomu að umfjöllun um málið í fjölmiðlum nema viðtal við formann félagsins um gildi skipsdagbókar og gjörbreyttar aðstæður hvað varðar vald skipstjóra sem hefur skv. 49.gr. sjómannalaga æðsta vald um borð í skipi sínu. Raunin er önnur í dag, útgerðarmaður og skipstjóri eru í stöðugu sambandi varðandi stjórn og veiðar.
* Í upphafi málsins var haft samband við þá þrjá skipstjórnarmenn sem voru í umræddri veiðiferð á Júlíusi Geirmundssyni og þeim boðin öll aðstoð sem félagið gat veitt, þar á meðal lögfræðiaðstoð.
* Félag skipstjórnarmanna stóð að því ásamt Sjómannasambandi Íslands, Sjómannafélagi Íslands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og VM-félagi vélstjóra og málmtæknimanna að kæra málið til lögreglu og krefjast þess að fram fari sjópróf í þeim tilgangi að fá fram sannleikann í málinu.
* Stjórn FS hefur orðið vör við mikla óánægju skipstjórnarmanna vegna yfirlýsinga fulltrúa annarra stéttarfélaga og einstakra lögfræðinga í kjölfar sjóréttar í máli Júlíusar Geirmundssonar. FS getur ekki borið ábyrgð á ummælum annara.