Yfirlýsing frá VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og FFSÍ – Farmanna og fiskimannasambandi Íslands vegna samkomulags stéttarfélagsins Framsýnar um störf á hvalaskoðunarskipum.
VM og FFSÍ lýsa yfir undrun á nýgerðum kjarasamningi stéttarfélagsins Framsýnar á Húsavík vegna starfsmanna hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum á staðnum. VM og FFSÍ fullyrða að við gerð þessa samnings hafi af hálfu Samtaka Atvinnulífsins ekki verið samið fyrir vélstjóra og skipstjórnarmenn. Það er skoðun VM og FFSÍ að fráleitt sé nota lágmarkslaun (kauptryggingu) úr kjarasamningi fiskimanna sem viðmið þegar samið er um kjör þeirra er starfa á skipum hvalaskoðunarfyrirtækja á Húsavík. Kauptrygging fiskimanna eru lágmarkslaun sem gripið er til í reiðuleysi þegar ekkert fiskast. Furðu gegnir að hvalskoðunarfyrirtæki sem að undanförnu hafa fengið gríðarlega fjölmiðlaumfjöllun og lýst þar sem algjörum hvalreka fyrir þjóðfélagið og gróskumesta sprota atvinnulífsins skuli bjóða upp á slík kjör í þeirri gósentíð sem ríkt hefur í þessari ágætu atvinnugrein.
Með samningnum er Framsýn að fara langt niður fyrir þau lágmarkskjör sem félögin telja ásættanleg fyrir skipstjórnarmenn, vélstjóra og reyndar alla áhafnarmeðlimi á þessum skipum.
Ekki hefur tekist að ná samkomulagi milli VM,FFSÍ og SA um störf yfirmanna á hvalaskoðunar- og öðrum fólksflutningaskipum fyrir hönd fyrirtækja í þessum greinum.Svona inngrip heima í héraði er eitthvað sem VM og FFSÍ telja að þurfi að heyra sögunni til svo hægt sé að ná samningum um eðlileg launakjör fyrir þessi störf á landsvísu.
Reykjavík 15. ágúst 2013.