Á aðalfundi í Vísi – Félagi skipstjórnarmanna á suðurnesjum sem haldinn var þann 29. desember sl. var samþykkt tillaga frá formanni félagsins Jóhannesi Jóhannessyni um að óska eftir að sameinast Félagi skipstjórnarmanna. Formaður og stjórn Vísis áttu í framhaldinu samtöl við formann FS Árna Sverrisson, sem kynnti málið í stjórn félagsins, sem samþykkti sameininguna með fyrirvara um samþykki aðalfundar.
Félagsmenn í Vísi hafa fengið kynningarbréf um málið frá formanni Vísis og mun rafræn atkvæðagreiðsla fara fram dagana 10. mars til 24. mars nk. Samþykki félagsmenn í Vísi tillöguna, mun hún verða lögð fyrir aðalfund í Félagi skipstjórnarmanna sem haldinn verður að venju föstudaginn fyrir sjómannadag þann 30. maí nk.
Það hefur alltaf verið náin og góð samvinna á milli félaganna, segja má að þetta sé eðlileg þróun sem hófst með stofnun Félags skipstjórnarmanna árið 2004, en þá sameinuðust mörg félög skipstjórnarmanna í eitt félag.
Verði af sameiningunni, munu félagsmenn Vísis verða félagsmenn í Félagi skipstjórnarmanna frá og með Sjómannadeginum þann 1. júní nk.