Sælir félagar.
Í dag þann 20. janúar verða póstlögð bréf til allra virkra félaga sem starfa á fiskiskipaflotanum. Tilgangurinn er sá að kanna viðhorf ykkar til þeirrar stöðu sem uppi er varðandi kjarasamninga fiskimanna. Sú afstaða sem fram kemur frá ykkur mun hafa mikil áhrif á hvernig félagið beitir sér í framhaldinu í kjaraviðræðunum. Komin er góð reynsla af rafrænum könnunum og atkvæðagreiðslum meðal farmanna, hafsögu og hafnarstarfsmanna en nú er í fyrsta skipti gerð rafræn könnun meðal okkar lang fjölmennustu stéttar. Varðandi þau atriði sem nefnd eru í bréfinu þá er FS að sjálfsögðu alls óbundið af þeim. T.d. er ekki til staðar áhugi á breytingum á ákvæðum um uppgjör á ísfisktogurum. Bréfið skýrir sig annars alfarið sjálft, en þar er um að ræða val milli þriggja kosta þar sem horft er til þeirrar þröngu stöðu sem uppi eru um þessar mundir. Ég hvet menn eindregið til að taka þátt í þessari fyrstu rafrænu könnun FS meðal fiskimanna.
Með félagskveðju. Árni Bjarnason formaður