Til upplýsinga fyrir félagsmenn um stöðuna í kjarasamningum fiskimanna, árlega endurskoðun styrkja og sjúkradagpeninga, lífeyrismál og endurbætur á sumarhúsum.
Staðan í kjarasamningum fiskimanna er viðkvæm, fundað er á tveggja til þriggja vikna fresti hjá Ríkissáttasemjara í stóru samninganefndinni þar sem að borðinu koma fulltrúar SFS og fulltrúar allra samtaka sjómanna. Á milli þessara funda er unnið í fjórum minni hópum þar sem til umræðu eru fiskverðsmál, málefni Verðlagsstofu skiptaverðs, breytingar á stærðarflokkun í kjarasamningum úr brl. í lengdarmetra, slysamál og fleira. Stefnt er að því að ná fram hækkun framlags útgerðarmanna í lífeyrissjóð um 3,5% fyrir sjómenn til samræmis við aðra launþega í landinu. Sjá nánar um málið í fundargerð stjórnar á “Mínar síður”.
Á stjórnarfundi þann 9. febrúar sl. var ákveðið að uppfæra styrki úr styrktarsjóði, sjá upphæðir á heimasíðu félagsins hér
Sjúkradagpeningar voru uppfærðir á stjórnarfundi þann 8. september sl.
Nánar má lesa um breytingarnar á heimasíðunni “Mínar síður” undir flipanum “Fundargerðir”
Stjórnin hvetur félagsmenn til þess að skoða og nýta sér möguleika á styrkjum.
Félagið hefur í samvinnu við Oceans ehf. látið búa til mælaborð sem sýnir, aflamagn, fiskverð upp úr skipi ásamt útflutningsverði (afurðaverði). Mælaborðið sýnir nú þessar upplýsingar fyrir Makríl, til skoðunar er hvort áframhald verður á þessari vinnu og þá með hvaða hætti og hvort önnur hagsmunasamtök sjómanna munu koma að henni. Þá yrðu skoðaðar aðrar fisktegundir. Málið er í vinnslu.
Stjórnin fékk á sinn fund Benedikt Jóhannesson stærðfræðing til að kynna breytingu á réttindainnvinslu sjóðfélaga Gildis lífeyrssjós, sem fyrirtæki hans Talnakönnun hefur unnið fyrir sjóðinn. Tillögur um þessar breytingar eru til umræðu hjá stjórn Gildis. Breytingartillögur munu koma til afgreiðslu á ársfundi Gildis þann 28. apríl nk.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að endurbótum á sumarhúsum félagsins Hrannarbóli og Laugabóli. Húsin hafa verið máluð að innan og skipt um gólfefni og húsgögn endurnýjuð að hluta. Vinnunni lýkur í mars. Ákveðið var að heimila hundahald til prufu í Hrannarbóli til áramóta.