Frá og með 1. janúar 2017 verða heilbrigðisvottorð farmanna aðeins gefin út af læknum sem hafa fengið viðurkenningu Samgöngustofu. Réttindamenn, m.a. skipstjórar, stýrimenn og vélstjórar, sem starfa á farþega- og flutningaskipum þurfa að vera með gilt alþjóðlegt atvinnuskírteini. Slík skírteini eru gefin út skv. STCW-alþjóðasamþykktinni sem snýr að menntun, þjálfun, skírteinum og vaktstöðu sjómanna. Umsókn farmanna um útgáfu eða endurnýjun STCW-atvinnuskírteinis þarf að fylgja heilbrigðisvottorð frá viðurkenndum lækni. Slík heilbrigðisvottorð munu gilda í tvö ár, en ekki fimm ár eins og hingað til.
Ástæða þessa eru breytingar á STCW-alþjóðasamþykktinni sem Ísland er aðili að, skv. reglugerð nr. 676/2015 um menntun og þjálfun farmanna á farþega- og flutningaskipum.
Samgöngustofa hefur að undanförnu, í samstarfi við Embætti landlæknis og Læknafélagið, kynnt þessa breytingu fyrir læknum. Opnað hefur verið fyrir umsóknir þeirra um viðurkenningu á vef Samgöngustofu. Samgöngustofa mun birta á vef sínum lista yfir viðurkennda sjómannalækna.
Sjá nánar á vef Samgöngustofu.