Af vettvangi dagsins frá formanni

Af vettvangi dagsins frá formanni

Félagið eflist með sameiningu Vísis og Félags skipstjórnarmanna

Á síðasta aðalfundi félagsins sem haldinn var föstudaginn 30 maí sl. sameinaðist VÍSIR, félag skipstjórnarmanna á Suðurnesjum okkur í Félagi skipstjórnarmanna (FS). Um 160 félagsmenn voru í Vísi, þar af um 60 starfandi sem njóta nú fullra réttinda í FS. Skrifstofu Vísis í Reykjanesbæ var lokað þann 1. október, þá lét Jóhannes Jóhannesson formaður formlega af störfum. Ég hlakka til samstarfs við fyrrum félagsmenn úr Vísi og hlakka til að kynnast þeim. Í félaginu eru nú rétt rúmlega 900 félagsmenn, þar af eru rúmlega 500 félagar virkir greiðandi félagsmenn.

Stjórn Félags skipstjórnarmanna

Stjórn félagsins fyrir tímabilið 2024 til 2028 skipa níu menn og tveir áheyrnarfulltrúar sem koma úr Vísi. Stjórnina skipa þeir Árni Sverrisson formaður og framkvæmdastjóri, Pálmi Gauti Hjörleifsson varaformaður, skipstjóri á Kaldbak EA-1 frá Akureyri, Heimir Karlsson ritari, skipstjóri á Dettifossi, Einar Pétur Eiríksson stýrimaður á Viðey RE, Friðrik Höskuldsson stýrimaður á varðskipinu Freyju, Jón Frímann Eiríksson skipstjóri á Viðey RE, Kristinn Hólm Ásmundsson skipstjóri á Frosta ÞH, Tryggvi Eiríksson skipstjóri á Baldvin Njálssyni GK og Vignir Traustason hafnsögumaður á Akureyri. Þeir Sigurður Freyr Helgason skipstjóri á Sigga Bjarna GK og Sigurður Jónsson skipstjóri á Tómasi Þorvaldssyni GK koma úr Vísi og eru áheyrnarfulltrúar á stjórnarfundum. Félagar eru endilega hvattir til að heyra í okkur á skrifstofunni eða stjórnarmönnum með hvaðeina sem tengist félaginu og hagsmunum þeirra.

Kjarasamningar 

Lokið er endurnýjun allra kjarasaminga félagsins en þeir eru níu talsins, félagið semur fyrir alla skipstjórnarmenn á landinu. Samtals er um að ræða níu sérkjarasamninga, þeir eru fyrir skipstjórnarmenn á fiskiskipum, fraktskipum, hjá Landhelgisgæslunni á varðskipum, þyrlum, flugvél og í stjórnstöð, skipstjórnarmenn á hafrannsóknaskipum, á ferðaþjónustuskipum, fiskeldisskipum og dýpkunarskipum. Auk þess er sérkjarasamningur við Faxaflóahafnir fyrir hafnsögumenn og skipstjóra og annar við Samband Íslenskra sveitarfélaga fyrir sömu störf. Flestir samningarnir gilda til 31. mars 2028, nema hjá fiskimönnum, þeir gilda til 31. Janúar 2033. Í flestum ofangreindra samninga eru bókanir sem kveða á um vinnu á samningstímabilinu, nefna má endurnýjun stofnanasamninga við LHG og Hafró, starfsmöt er varða launaröðun, eftirfylgni með því að rétt sé upp gert, öryggismál og fleira. Verkefnin eru næg. Kjarasamningana geta menn séð inni á mínum síðum á heimasíðu félagsins www.skipstjorn.is

Orlofskostir

Nýji orlofs- og styrktarvefurinn nýtur vaxandi vinsælda hjá félagsmönnum, þar geta menn sótt um orlofshús, styrki og sjúkradagpeninga. Auk þess fylgst með framboði á orlofshúsum, gistimöguleikum með ferðaávísunum, hvaða rétt þeir eiga til styrkja og sjúkradagpeninga ásamt fleiru. Ég hvet menn til að skoða framboð og sækja um á skipstjorn.is  undir flipanum ORLOFSVEFUR/STYRKIR.

Stefna félagsins er að bjóða félagsmönnum upp á góðar orlofsíbúðir og sumarhús. Það er dýrt fyrir félagið að endurnýja eldri eignir, því höfum við unnið að því að selja eldri eignir og kaupa nýlegar. Eignir félagsins eru eftirtaldar:

  • 8 Íbúðir í Reykjavík, fjórar nýjar í Borgartúni, ein nýleg í Jaðarleiti og ein í lágaleiti, tvær eldri íbúðir eru sölumeðferð, Ásholt og Neðstaleiti.
  • 4 bústaðir á Laugarvatni sem ákveðið hefur verið að selja og kaupa tvö nýleg sumarhús í staðinn á því svæði.
  • 1 bústaður í brekkuskógi sem ákveðið hefur verið að selja.
  • 1 sumarhús í Skorradal sem keypt var sl. vor og notið hefur mikilla vinsælda í sumar.
  • 6 íbúðir á Akureyri, fjórar nýlegar íbúðir við Austurbrú í miðbæ Akureyrar og nýtt hús í Hálöndum í Hlíðarfjalli sem tekið verður í notkun í október, auk þess á félagið íbúð við Strandgötu sem er í sölumeðferð.
  • 1 bústaður í Fnjóskadal
  • 1 bústaður í Úlfsstaðaskógi nærri Hallormsstaðaskógi.

Rekstur félagsins

Félagið stendur vel, félagsmenn geta séð ársreikning félagsins á heimasíðunni undir MÍNAR SÍÐUR. Ég bendi félagsmönnum einnig á fundargerðir stjórnar og fleira áhugavert þar undir. Þess má einnig geta að starfsmönnum á skrifstofu fækkaði í fyrra um einn og eru nú þrír. Þeir eru Árni Sverrisson, Páll Ægir Pétursson og Jóna Brynja Birkisdóttir, við erum ávallt til þjónustu reiðubúin.

Helstu áherslur framundan

Fiskverð

Laun sjómanna á fiskiskipum byggjast á fiskverði eins og flestir vita. Lágmarks fiskverð á þorski, ýsu, ufsa og karfa er ákvarðað í úrskurðarnefnd sem fundar einu sinni í mánuði. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar Verðlagsstofu skipstaverðs, sjómanna, SFS og LS. Ferlið er samkvæmt kjarasamningi, í stuttu máli miðað við um 80% af vegnu meðalverði síðustu þriggja mánaða á fiskmörkuðum. Einnig tekið mið af útflutningsverði afurða og hráefnishlutfalli í fiskvinnslunni. Úrskurðarnefnd vinnur sífellt að því að endurbæta þetta ferli.

Lágmarks fiskverð á uppsjávarfiski er samkvæmt kjarasamingi ákveðið hlutfall af skilaverði hráefnis, í flestum tilfellum um 32-34% af skilaverði útflutningsafurða þegar afli fer í vinnslu og 55% af skilaverði þegar afli fer í bræðslu í mjöl og lýsi.

Verðlagsstofa skiptaverðs, VSS, gegnir lykilhlutverki, hún á að fylgjast með því að rétt sé gert upp við sjómenn. VSS var sett á stofn með lögum árið 1998 eftir áralangar vinnudeilur vegna fiskverðs, en krafa sjómanna hafði um árabil verið að verð á öllum fiski skyldi ákvarðað á frjálsum fiskmarkaði. Hvorki sjávarútvegurinn né stjórnvöld vildu fallast á kröfu sjómanna, þrautalausnin var að setja á stofn opinbera stofnun VSS sem hefði það eina hlutverk að fylgjast með því að fiskverð væri rétt.

VSS hefur ekki möguleika á því að rækja hlutverk sitt, á stofnuninni vinna einungis þrír starfsmenn sem komast engan veginn yfir að fylgjast með því sem þeim ber. VSS er of fámenn og hún hefur ekki aðgengi að lykilgögnum sem er útflutningsverð afurða í rauntíma.

Það er í forgangi hjá okkur að berjast fyrir því að VSS fái upplýsingar um raunverð útflutnings á öllum sjávarafurðum.

Menntamál skipstjórnarmanna

Það stendur til að byggja nýjan Tækniskóla í Hafnafirði og færa alla starfsemi úr gömlu sjómannaskóla byggingunni, þessu höfum við mótmælt harðlega og munum gera áfram. Það er okkar mat að skipstjórnar nám eigi að vera í sérstökum skóla sjávarútvegs og siglinga í húsinu okkar sem gefið var sjómannastéttinni í þeim tilgangi að þar færi fram nám sjómanna. Sjá hér  og  hér

Fagráð um siglingar

Síðastliðið vor skipaði Eyjólfur Ármannsson Innviðaráðherra Pál Ægi Pétursson formann Fagráðs Siglinga og í framhaldi skipuðum við í stjórn félagsins Heimi Karlsson í ráðið og varamann hans Tryggva Eiríksson. Hlutverk fagráðs um siglingamál er að vera ráðherra til ráðuneytis um málefni siglinga, hafna, vita, sjóvarna og öryggis sjófarenda. Hér má sjá fundargerðir og hlutverk ráðsins. 

Síðast en ekki síst „Kleinukaffið“

Félagið erum við félagarnir. Kleinukaffið er orðinn fastur liður í tilveru okkar, það er haldið síðasta föstudag í mánuði yfir vetrarmánuðina, þann 26. september mættu um 15 félagsmenn á skrifstofu félagsins í gott spjall. Á þessum spjall fundum gefst tækifæri til að hitta félagana og okkur á skrifstofunni sem er ákaflega mikilvægt og gaman til að efla félagsandann. Ég hvet alla félagsmenn endilega til að koma og láta sjá sig, maður er manns gaman.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Félag skipstjórnarmanna notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á skipstjorn.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur