Þann 24. júní síðastliðinn var undirritaður kjarasamningur milli Farmanna-og fiskimannasambands Íslands annars vegar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hins vegar. Samningurinn er undirritaður með fyrirvara um samþykki aðildarfélaganna. Samkvæmt samningnum er síðast gildandi samningur framlengdur til 31. desember 2018 með þeim breytingum sem skrifað var undir þann 24. júní síðastliðinn. Samningurinn gildir frá 1. júní 2016. Hér fyrir neðan má sjá samninginn og stutta kynningu á helstu atriðum hans. Undanfarna daga hefur verið unnið að undirbúningi rafrænnar atkvæðagreiðslu sem í fyrsta sinn er stofnað til varðandi alla starfandi (virka) skipstjórnarmenn á fiskiskipaflotanum innan aðildarfélaga FFSÍ. Í vikunni fá viðkomandi félagsmenn bréf í pósti og þeir sem við höfum netföngin á einnig í tölvupósti. Auk þess fylgir með aðgangslykill sem opnar aðgang fyrir menn til að kjósa. Kosningu lýkur þann 8. ágúst og niðurstöður liggja fyrir þann 10.
FFSÍ – Félag skipstjórnarmanna – Verðandi – Vísir.
Reykjavík 29.júní 2016.
Ágæti félagsmaður
Á grundvelli spurningarinnar „Á að semja um þau atriði sem útgerð vill ræða ?” sem var ein þeirra spurninga sem send var út í afstöðukönnunninni sem send var til félagsmanna í febrúar s.l. hefur nú verið gengið frá nýjum kjarasamningi við SFS.
Samningurinn gerir ráð fyrir hækkun kauptryggingar til samræmis við almennar launahækkanir í þjóðfélaginu. Fyrsta hækkun frá 1.júni 2016 og síðan hækkanir 1.maí 2017 og 2018 eða samtals hækkun kauptryggingar um 32,5% á samningstímanum. Útgerð er gert skylt að láta brúttórúmlestamæla skip og olíuverðsviðmiðun er færð til nútímans með sama hætti og venjulegt er við endurnýjun samnings. Nýr kafli er um frystitogara með fjölmenna áhöfn. Samningsforsendur eru samsvarandi almennum samningum svo og gildistími.
Með hinum eiginlega samningi eru viðamiklar bókanir í þremur tölusettum liðum.
Í fyrsta lagi vegna bókunar um fæðispeninga hefur fjármálaráðherra lofað að fæðispeningar að upphæð kr. 500 á lögskráningardag verði undanþegin tekjuskatti.(Á eftir að útfæra nánar)
Í öðru lagi bókun um athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í uppsjávarskipum, ísfisktogurum og dagróðrarbátum. Þessi úttekt verður gerð undir forsæti og verkstjórn Samgöngustofu og hefur forsvarsmaður könnunarinnar þegar verið skipaður.
Í þriðja lagi bókun um yfirferð kjarasamninga en hér er um að ræða heildarendurskoðun kjarasamninsins þar sem flestir þættir hans eru undir sbr. upptalningu í samningnum sjálfum. Þessi heildarendurskoðun verður framkvæmd af sameiginlegum starfshópi aðila undir stjórn Ríkissáttasemjara. Starfshópurinn getur leitað eftir þörfum til utanaðkomandi aðila sem þekkingu hafa á viðkomandi sviði.
Það er gríðarlega mikilvægt að láta á það reyna að efni bókananna skili árangri. Til að svo megi verða þurfa félagsmenn að samþykkja samninginn.
Verði samningurinn ekki samþykktur reynir ekki á þessi mikilvægu atriði bókananna með áframhaldandi óvissu.
FFSÍ mælir eindregið með samþykkt samningsins