Aðalfundur félagsins var haldinn föstudaginn 4. júní sl., sjá fundargerð og ársreikninga félagsins á heimasíðu félagsins „Mínar síður“
Fundurinn var að fullu rafrænn í fyrsta sinn. Menn frá Advania sáu um útsendingu fundarins og atkvæðagreiðslur. Á fundinum voru 36 félagsmenn, 22 menn mættu í fundarsalinn á Grand Hótel og 14 menn voru á fjarfundi.
Verkefni fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf, yfirferð á skýrslu stjórnar og reikningum félagsins og sjóða þess. Auk þess var á dagskrá fundarins kynning á tillögu stjórnar að breytingu á lögum félagsins, en stjórnin fól þeim Árna Sverrissyni framkvæmdastjóra félagsins, Guðjóni Guðjónssyni skipstjóra á Arnari, Sigþóri Hilmari Guðnasyni skipstjóra á Helgafelli og Pálma Gauta Hjörleifssyni skipstjóra á Björgúlfi að yfirfara lögin og koma með tillögu til stjórnar að breytingum. Þeir skiluðu stjórninni tillögum að lagabreytingum sem stjórnin samþykkti að leggja fyrir aðalfundinn, farið var yfir breytingarnar og þær samþykktar með lítilsháttar breytingum. Sjá lög félagsins hér
Páll Ægir Pétursson og Árni Bjarnason fóru yfir stöðu kjaramála, en búið er að skrifa undir alla kjarasamninga félagsins með gildistíma til haustsins 2022 og 2023, nema Kjarasaming fiskimanna sem rann út í desember 2019. Þar að auki hefur enn ekki tekist að fá fiskeldisfyrirtækin í landinu til að gera kjarasamning við okkur né VM fyrir vélstjóra, en að því er unnið í samvinnu við VM.
Viðræður um endurnýjun kjarasamnings fiskimanna eru hjá Ríkissáttasemjara, fundað er vikulega og oftar í undirnefndum. Viðræðurnar eru á viðkvæmu stigi og skýrist fljótlega hvort gengur saman eða ekki. En aðilar eru sammála um að klára kjarasamning fyrir sumarfrí. Sjá nánar fundargerð aðalfundar á „Mínar síður“.