Við viljum vekja athygli félagsamanna á því að menn geta sótt um að njóta réttinda sem aldraðir hafi þeir náð 60 ára aldri og hafi þeir starfað í 25 ár til sjós.
Eins og segir í 8. og 9. málsgrein 17. greinar laga nr. 100/2007.
Hver, sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur, skal eiga rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þessarar greinar. Starfsár sjómanna skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett með reglugerð.
Nú hefur sjómaður stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur að hluta eða öllu leyti á opnum báti eða þilfarsbáti undir 12 brl. eða af öðrum ástæðum ekki borið skylda til lögskráningar og er þá heimilt að úrskurða honum ellilífeyri frá og með 60 ára aldri, enda sé sannað að sú sjómennska hafi verið aðalstarf viðkomandi meðan á henni stóð.
Óski sjúkratryggður sjómaður þess að njóta réttinda sem aldraður án þess að hafa náð 67 ára aldri þá þarf hann að sýna fram á að hann uppfylli skilyrði 8. og 9. mgr. 17. gr. laga. nr. 100/2007. Til þess þarf hann að leggja fram gögn um sjósókn sína. Hægt er að nálgast þau gögn hjá Samgöngustofu. SÍ leggur síðan mat á gögnin og tekur afstöðu til hvort skilyrði 8. og 9. mgr. 17. gr. laga. nr. 100/2007 séu uppfyllt. Séu skilyrðin uppfyllt skal aðilinn njóta réttinda samkvæmt reglugerðinni sem aldraður.
Senda skal umsókn á laeknareikningar@sjukra.is ásamt gögnum sem staðfesta ofangreind réttindi.