46. Þing FFSÍ 28. og 29. nóv

Þingið var haldið að Grand Hótel Reykjavík dagana 28. og 29. nóvember.

Ályktanir þingsins.

 

Um verðmyndun sjávarafla

46. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldið dagana 28. og 29. nóvember 2013, skorar á hlutaeigandi yfirvöld að beita sér með öllum ráðum fyrir því að sjávarafli á Íslandi verði verðlagður í gegnum fiskmarkað eða afurðaverðstengdur.

Jafnframt verði unnið að aðskilnaði veiða og vinnslu.

Greinargerð:  

Ekki verður lengur við það unað að verðlagning á sjávarafla sé með þeim hætti sem raun ber vitni. Árum saman hefur verið ófriður og megn óánægja með núverandi kerfi.

Þingið lýsir yfir að deilur um fiskverð verði aldrei leystar nema að allur fiskur verði seldur á uppboðsmörkuðum eða beintengdur markaðsverði. Aðrar lausnir munu aðeins halda deilunni gangandi um ókomin ár.

 

 

 

Um stjórnkerfi fiskveiða

 

46. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldið dagana 28. og 29. nóvember 2013 vonast til að það frumvarp sem nú er í smíðum og byggir á tillögum Sáttanefndar verði til þess að losa um þann harða hnút sem staðið hefur kjarasamningsviðræðum hagsmunaaðila fyrir þrifum allt frá hruni.

 

Viðvarandi óvissa um framtíðarfyrirkomulag á stjórn fiskveiða hefur leitt af sér algjöra kyrrstöðu í kjarasamningsviðræðum sjómanna og útvegsmanna, sem mál er að linni.

 

 

 

Um sjómannaafslátt

 

46. Þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldið dagana 28. og 29. nóvember 2013, krefst þess að stjórnvöld hætti við afnám sjómannaafsláttarins og skili sjómönnum þeim sjálfsagða rétti sem þeir hafa notið í meira en 50 ár.

 

Greinargerð:

 

Hjá öllum siðmenntuðum þjóðum þar sem sjómennska er stunduð njóta sjómenn skattalegra hlunninda vegna sérstöðu starfsins. Ísland sker sig algjörlega úr í samanburði við aðrar þjóðir að þessu leiti. Norræna velferðarsamfélaginu, sem stjórnmálamenn vísa ósjaldan til sem okkar framtíðarfyrirmyndar, er gefið langt nef, þar sem sjómenn allra norðurlanda njóta marfaldra hlunninda umfram þau sem verið er að svipta íslenska sjómannastétt.

 

 

Ályktun um útgerð kaupskipa

 

46. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldið dagana 28.-29. nóvember 2013, krefst þess að stjórnvöld tryggi að útgerð kaupskipa á Íslandi verði samkeppnishæf í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi greinarinnar. Íslensk kaupskipaútgerð er þegar aflögð en tryggja verður að atvinnugreinin geti lifnað við og átt möguleika til framtíðar. Ljóst má vera að inn- og útflutningur þjóðarinnar mun ávallt byggjast á sjóflutningum.

 

Greinagerð:

 

Stjórnvöld hafa ekki sýnt að þau geri sér grein fyrir mikilvægi þess að kaupskipaútgerð fái þrifist á Íslandi. Búa þarf kaupskipaútgerð samkeppnishæft skattumhverfi við það sem alþjóðleg útgerð býr við. Það er ekki frjáls þjóð sem ekki ræður yfir kaupskipaflota sínum.

 

 

Ályktun um Landhelgisgæslu Íslands.

 

46. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldið dagana 28. og 29. nóvember 2013 skorar á stjórnvöld að tryggja Landhelgisgæslu Íslands nægjanlegt fjármagn til reksturs skipa stofnunarinnar. Það er óviðunandi að skip Landhelgisgæslunnar liggi bundin við bryggju meirihluta ársins. Það eru lágmarkskröfur að minnsta kosti einu skipi sé haldið á miðunum kringum landið á hverjum tíma. Öryggi sjófarenda er í húfi.

 

Greinargerð:

 

Um allt of langan tíma hafa fjárveitingar til útgerðar skipa Landhelgisgæslunnar verið skornar við trog. FFSÍ sem hagsmunaaðili skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, hverju nafni sem þau nefnast, finnur fyrir áhyggjum skjólstæðinga sinna vegna þessa. Brýnt er að bæta úr þessu strax.

 

 

Kjaramál fiskimanna

 

46. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldið 28.og 29. nóvember 2013, ályktar að kröfur LÍÚ um kjaraskerðingu á hendur sjómönnum séu óverjandi og ekki í neinu samræmi við einstaklega góða rekstrarafkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Þingið mótmælir því harðlega að opinber álagningarstefna stjórnvalda á atvinnugreinina eigi að hafa neikvæð áhrif á kjör sjómanna.

 

 

Ályktun um slysatryggingu fiskimanna.

 

46. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldið að Grand Hótel 28. og 29. nóvember 2013, beinir þeim tilmælum til sameiginlegrar samninganefndar fiskimanna að kvika í engu frá þeim árangri sem náðst hefur í slysatryggingu fiskimanna.

 

Greinargerð:

 

Það tók fiskimenn marga áratugi og ómælda baráttu að koma slysatryggingum á þann stað þar sem þær nú eru, og því óðs manns æði að slaka þar á.

 

 

Um starfsemi Hafrannsóknastofnunar.

 

46. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldið dagana 28. og 29. nóvember 2013 telur brýnna en nokkru sinni að stórauka veiðarfæra, haf- og fiskirannsóknir. Aukin þekking á veiðarfærum og ástandi fiskistofna, er algjör grunnforsenda fyrir betri nýtingu á auðlindum hafsins. Það er algjör lágmarkskrafa að tryggt sé að rannsóknarskip stofnunarinnar séu nýtt til rannsókna af fullum krafti allt árið, en liggi ekki í höfn langtímum saman vegna skorts á rekstrarfé.

 

 

Ályktun til Samkeppnisstofnunar

 

46. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldið að Grand Hótel dagana 28. og 29. nóvember 2013 beinir því til Samkeppnisstofnunar að hún skoði nú þegar hvort sala og verðlagning á fiski í beinum viðskiptum milli aðila standist samkeppnislög.

 

Greiðsla vegna stóraukinnar skrifstofuvinnu

 

46. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldið 28. og 29. nóvember 2013, krefst þess að hlutir skipstjórnarmanna verði eftirfarandi:

 

Skipstjóri 2,25 hlutir

 

Yfirstýrimaður 1,75 hlutir

 

Annar stýrimaður 1,5 hlutir

 

Greinagerð:

 

Þar sem pappírsvinna hefur aukist til muna um borð í öllum skipum, vegna rekjanleika á afurðum (HACCAP) og einnig hafa önnur eftirlitskerfi hafa verið sett um borð.

 

Vegna þessa hefur ábyrgð og vinna skipstjórnarmanna aukist til að muna án þess að greiðsla hafi komið fyrir.

 

Um hvalveiðar

 

46. þingi FFSÍ haldið í Reykjavík dagana 28. Og 29. Nóv. 2013

 

Farmanna- og fiskimannasambands Íslands lýsir eindregnum stuðningi við hvaleiðar og varar við vanmati á þeim áhrifum sem afrán hvalstofna hefur á þá nytjastofna sem mesta þýðingu hafa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Félag skipstjórnarmanna notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á skipstjorn.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur