Nokkur orð um fiskeldi

Undanfarna mánuði höfum við haft samband við skipstjórnarmenn beggja eldisfyrirtækjanna á Austfjörðum og eins eldisfyrirtækis með höfuðstöðvar á norðanverðum Vestfjörðum. Markmiðið er að fá  starfsmenn þeirra til að ganga í FS svo að hægt sé að gera kjarasamning fyrir skipstjórnarmenn eldisfyrirtækja á landinu.  Á fundi með sáttasemjara síðasta vetur, með fulltrúm SFS, SA og VM, kom fram að það er almennur vilji fyrirtækjanna og samtaka þeirra að gera eingöngu vinnustaðasamninga við starfsmenn en ekki kjarasamning. Þessu erum við ósammála hjá FS, því kjarasamningar hafa mikla sérstöðu gagnvart öðrum samningum. Þeir eru ekki gerðir milli einstaklinga, heldur milli viðkomandi stéttarfélaga/verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Kjarasamningurinn byggir á félagslegum grundvelli en ekki einstaklingsbundnum. Einstökum starfsmönnum er þ.a.l. óheimilt að semja um lakari kjör en samkv. kjarasamningum. Kjarasamningar hafa að geyma mikilvægustu þætti um kaup og kjör launþega. Það er hins vegar erfitt fyrir okkur að fara fram á að gerður verði kjarasamningur fyrir einungis örfáa menn þegar meirihluti skipstjórnarmanna á eldisbátum eru ekki í FS. Það skal tekið fram að skipstjórnarmenn Arnarlax eru félagsmenn í FS og hafa verið um nokkurn tíma. Eins og áður sagði var haft samband við flesta skipstjórnarmenn eldis og þjónustubáta landsins, fyrst hringdum við í þá í sumar og í framhaldinu var öllum sendur tölvupóstur og síðan höfum við fylgt málinu eftir með símtölum í tvígang í haust og sendum tölvupósta til trúnaðarmanna fyrirtækjanna í síðasta mánuði. Því miður hafa viðbrögðin verið dræm og liggja e.t.v. nokkrar ástæður þar að baki en einhverjir starfsmenn sögðu okkur að tilfinning þeirra væri sú að fyrirtækin vildu halda sínu fólki hjá verkalýðsfélögum heima í héraði. Við höfum hins vegar bent á að FS er eina stéttarfélagið sem fer með samningsumboð fyrir skipstjórnarmenn á landinu og því er ekki nema eðlilegt að sú stétt þjappi sér saman í eitt stéttarfélag skipstjórnarmanna.

Fiskeldið á Íslandi hefur mikla tengingu við Noreg, eina öflugustu fiskeldisþjóð heims. Þau tengsl færa mikla fagþekkingu inn í fiskeldisgreinina og lítil þorp, sérstaklega á Vestfjörðum þar sem fólksfækkun var mikil og stefndi í óefni, hafa lifnað við og líf færst aftur í atvinnustarfsemi og störfum fjölgað. Hins vegar hafa eldisfyrirtækin með Norðmenn í broddi fylkingar ekki haft áhuga á að gera við okkur kjarasamning og það er óásættanleg staða.  Annað er svo réttindamál og eftirlit með eldisbátunum hringinn í kringum landið. Við sendum Samgöngustofu af gefnu tilefni í fyrrahaust nokkrar spurningar, m.a. varðandi lögskráningu á erlenda þjónustubáta í fiskeldi, hvernig tryggingum manna er háttað, eftirlit með þessum bátum meðan þeir eru hér við land, mönnun, réttindamál o.fl. Það hafa verið alls konar fullyrðingar í gangi meðal félagsmanna um að ekki liggi ljóst fyrir hver sé skipstjóri, að skipstjóri hafi ekki tilskilin réttindi, að enginn vélstjóri sé um borð. Við spurðum Samgögnustofu um fjölda þjónustubáta undir erlendum fána og kom fram í svari þeirra að í fyrrahaust voru 6 bátar undir norskum fána og samkv. nýjustu upplýsingum frá Gæslunni síðan í september sl., þá voru 10 bátar sem tengjast fiskeldinu einnig undir norskum fána.  Samgöngustofa var búin að biðja Landhelgisgæsluna um nöfn norska skipa í sjókvíaeldi hér við land, stærð þeirra og vélarafl.  Samgöngustofa leitaði upplýsingar hjá norsku siglingastofnuninni m.a. um mönnunarkröfur á þessum  skipum, hverjar séu réttindakröfur áhafna í einstakar stöður og hvernig áhafnatryggingum sé háttað. Jafnframt ætluðu þeir að afla upplýsinga hjá fiskeldisfyrirtækjunum að hvaða marki þessi skip eru mönnuð Íslendingum og hvort stefnt sé að því að þessi skip verði skráð á íslenska skipaskrá. Samkvæmt svörum norsku siglingastofnunarinnar, þá eru áþekkar kröfur fyrir skipstjóra nema úti í Noregi er miðað við 8 metra báta. Ekki er gerð krafa um vélstjórnarréttindi á vélar minni en 750 Kw. (1000 hö). Varðandi stýrimenn, þá er miðað við 20m báta en nýjar reglur taka gildi 2024 og væntanlega verður gerð krafa um stýrimenn á styttri bátum.

Við höfum einnig fylgst með fréttum af norsku sláturskipi hér við land sem dældi laxi úr kvíum í Tálknafirði í október sl. um 500 tonnum og sigldi síðan til Danmerkur eftir nokkra klst. viðveru án þess að koma að landi. Sjávarútvegsráðuneytinu var sendur tölvupóstur um miðjan október sl. þar sem FS gerði athugasemdir og bað um skýringar. Fram kom m.a. í svari ráðuneytisins að ekki sé fjallað sérstaklega um sláturskip í íslenskri löggjöf. Um fiskveiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilögsögu Íslands er fjallað í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998. Lögin gilda ekki um sláturskip líkt og sláturskipinu sem kom til landsins nýverið þar sem lögin taka aðeins til fiskveiða og þeirra stofna sem tilgreindir eru í skema NEAFC.

Einnig kom fram í svari ráðuneytisins að skrifstofa matvælaöryggis og fiskeldis hefur verið að skoða þá þætti sem betur mættu fara varðandi fiskeldi á Íslandi, meðal annars lagaumgjörðina. Að mati fulltrúa skrifstofunnar er notkun sláturbáta eitt af þeim atriðum sem þarfnast frekari skoðunar.

Ráðuneytinu var bent á að skoðun okkar væri sú að skip sem stundar atvinnustarfsemi á Íslandi meginhluta ársins ætti að skrá á íslenska skipaskrá. Með slíkri breytingu væri unnt að auka eftirlit með þjónustubátum í fiskeldi og annarra skipa sem koma hugsanlega til með að stunda atvinnustarfsemi hér við land í framtíðinni.

Það er augljóst að setja þarf þessari atvinnugrein skýrar leikreglur og aukið eftirlit, hefði raunar átt að vera löngu búið að því. Vonandi verður það eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar.

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Félag skipstjórnarmanna notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á skipstjorn.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur