Umfjöllun í Morgunblaðinu
Í Morgunblaðinu hefur í gær og í dag verið fjallað um alþjóða skipaskrár og stöðu íslenskra farmanna. FS fagnar þeim áhuga sem blaðið sýnir á þessum málum, betra er seint en aldrei.
Stéttarfélög farmanna hafa áratugum saman barist fyrir því að íslensk alþjóðleg skipaskrá yrði stofnuð sem væri samkeppnishæf við þær alþjóða skipaskrár sem nágrannalönd okkar hefðu. Ótal fundir með stjórnvöldum í gegnum árin þar sem bent var á að ef ekki yrði brugðist við færðust kaupskip úr landi og stétt íslenskra farmanna legðist af. Skipin eru löngu farin undan íslenskum fána. Í farmannastéttinni hækkar meðalaldur og mönnum fækkar. Skilningur og áhugi ráðamanna var afar takmarkaður og skiptir þá engu hvaða flokki þeir tilheyrðu.
En loks skilaði þessi barátta einhverju og lög um íslenska alþjóða skipaskrá nr. 38/2007 og lög um skattlagningu kaupskipaútgerða nr. 86/2007 tóku gildi 1. janúar 2008. Lögin um íslensku alþjóða skipaskrána eru meingölluð og hafa ekki náð tilgangi sínum. Að minnsta kosti er ekkert skip á skránni enn sem komið er. Lögin um skattlagningu kaupskipaútgerðar voru felld úr gildi skv. 33. gr. laga nr. 164/2011. Ef vill þá má velta fyrir sér hvern hug sitjandi stjórnvöld bera til málsins.
Á mbl.is í gær er vitnað til „Face“bókarfærslu Bjarna Benediktssonar þar sem hann segir „Það er óásættanlegt að hjá siglingaþjóðinni Íslandi sé ekki samkeppnishæf og öflug alþjóðleg skipaskrá. Öllum árum verður að róa að því að fá skipin skráð heim,“ segir þar.
Þarna er á ferðinni önnur hugsun en hjá forvera hans í formannstóli Sjálfstæðisflokksins en Geir Haarde sagði á þingi (líklega í aðdraganda setningar laga nr. 38/2007 og nr. 86/2007) að hann sæi enga ástæðu til að umbuna kaupskipaútgerðum sérstaklega enda um öflug og velrekin fyrirtæki að ræða.
Til að nefna eitthvað má spyrja hvaða rök mæla með því að kvikmyndagerð njóti skattfríðinda og eins ferðaþjónustan sbr. umræðu í fjölmiðlum síðustu daga ? Við vitum svarið. Samkeppnishæfi.