Innlent | mbl | 30.1.2013 | 14:37
ASÍ stefnir SA og LÍÚ fyrir Félagsdóm
Fjöldia skipa sigildi til Reykjavíkur 7. júní í fyrra til að mótmæla sjávarútvegsfrumvörpunum og samstöðufundur …stækka
Fjöldia skipa sigildi til Reykjavíkur 7. júní í fyrra til að mótmæla sjávarútvegsfrumvörpunum og samstöðufundur var haldinn á Austurvelli. Morgunblaðið/Eggert
ASÍ hefur höfðað mál fyrir Félagsdómi gegn Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd LÍÚ, þar sem þess er krafist að sú aðgerð LÍÚ að beina því til félagsmanna sinna að halda skipum sínum ekki til veiða eftir sjómannadaginn 2. júní sl. og beina þeim þess í stað til Reykjavíkurhafnar 7. júní, í mótmælaskyni gegn sjávarútvegsfrumvörpum ríkisstjórnarinnar, verði dæmd brot á vinnulöggjöfinni.
Stefna ASÍ var þingfest síðast liðinn mánudag og var SA og LÍÚ veittur frestur til 6. mars til að skila greinargerð vegna málsins.
Er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu sektar skv. 70. grein laganna um stéttarfélög og vinnudeilur og greiðslu málskostnaðar.
ASÍ heldur því fram í málshöfðun sinni að aðgerðir LÍÚ hafi falið í sér ólögmæta stöðvun fiskiskipaflotans. Um hafi verið að ræða ólögmæta pólitíska vinnustöðvun sem brjóti gegn 2. tölulið, 17. greinar laganna um stéttarfélög og vinnudeildur en hún kveður á um að aðilum vinnumarkaðarins sé óheimilt að fara í vinnustöðvun til að knýja stjórnvöld til ákveðinna athafna eða athafnaleysis.
###################################################################################################
Farmanna-og fiskimanna samband Íslands var aðili að þessum mótmælum og tók fullan þátt í þeim. Það var m.a. gert til að fylgja eftir eftirfarandi ályktun stjórna FFSÍ og FS:
Fundur í stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Félagi skipstjórnarmanna mótmælir harðlega framkomnum frumvörpum um stjórn fiskveiða og um veiðigjöld.
Verði þessi frumvörp, sem eru unnin án alls samráðs við atvinnugreinina, að lögum, munu þau viðhalda og jafnvel auka ósætti innan greinarinnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Með skerðingum aflaheimilda munu kjör sjómanna versna verulega og leigubrask sem stjórnvöld ætla nú að takast á hendur mun aukast. Til viðbótar við þá skerðingu sem stjórnvöld stóðu fyrir með afnámi sjómannaafsláttar er þetta fráleitt framferði gagnvart einni starfsstétt og sýnir í hnotskurn hvaða hug ríkjandi stjórnvöld bera til þeirrar starfsgreinar sem mestu hefur skilað við að draga vagn þjóðarbúskaparins við að skapa útflutningsverðmæti á erfiðum tímum undanfarin misseri.
Við þetta tækifæri flutti Árni Bjarnason forseti FFSÍ ræðu sem sjá má hér fyrir neðan.
( Ekki hefur enn borist stefna ASÍ á hendur Farmanna-og fiskimannasambandi Íslands)
Ræða á Austurvelli
Góðir áheyrendur ég tek til máls hér í dag til að reyna í stuttu máli að lýsa stöðunni í málefnum sjávarútvegsins eins og hún lítur út frá sjónarhóli fulltrúa fiskimanna í stjórn FFSÍ og einnig sem einn af þeim sem hefur það hlutverk með höndum að semja við LÍÚ f.h. minnar stéttar sem eru íslenskir skipstjórnarmenn. Kjarasamningar fiskimanna hafa verið lausir frá því um áramótin 2010/11 eða í rúma 17 mánuði. Allan þennan tíma hafa aðilar málsins metið stöðu mála á þá lund að ekki væru neinar forsendur til staðar til viðræðna um endurnýjun kjarasamninga þar sem algjör óvissa ríkti um framtíðina og það rekstrarumhverfi sem sjávarútvegurinn kæmi til með að búa við þegar ný lög litu dagsins ljós. Nú eru þau komin fram og ekki bara eitt frumvarp heldur tvö. Annað um stjórnkerfi fiskveiða og hinsvegar lög sem innihalda nýja töfraútgáfu af veiðigjaldi sem er þeim einstæðu eiginleikum gætt að það kemur eitt og sér í veg fyrir kjaraskerðingu sjómanna um aldur og æfi ef marka má síendurteknar fullyrðingar sjávarútvegsráðherra í þá veru. Fjölmargir aðilar s.s. allar helstu fjármálastofnanir, hagfræðingar sérstaklega til kvaddir af Atvinnuveganefnd svo dæmi séu tekin, komast að allt annarri og mun verri niðurstöðu. Hvað gengur þessum aðilum til ? Eru þeirra alvarlegu varnaðarorð komin til af einhverjum annarlegum hvötum ? Því fer fjarri að svo sé. Þetta eru einfaldlega niðurstöður sérfræðinga sem meta afleiðingar þessara frumvarpa á raunhæfari hátt en þeir sem smíðuðu frumvörpin. Steingrímur J Sigfússon er óumdeilanlega einn mesti tungufoss landsins og hefur af þeim sökum ærið oft náð að stýra umræðunni og þagga niður í gagnrýnisröddum. Á sjómannadaginn fullvissaði hann t.d. sjómenn um að engu í þessum málum væri stefnt gegn hagsmunum sjómannastéttarinnar sem slíkri. Þessi mál snúast ekki um að veiða minna af fiski eða skerða kjör eða skiptahlutföll sjómanna. Þvert á móti stendur til að reyna eftir því sem slíkt er hægt í gegn um lög um stjórn fiskveiða að treysta betur umgjörð um kjaramál sjómanna og reyna að undirbyggja að öllum lögskráðum sjómönnum skuli tryggðir kjarasamningar og einhver umsamin lágmarkskjör. Þessi fullyrðing stenst því miður ekki fyrir margra hluta sakir. Sem dæmi má nefna verulegar og viðvarandi tilfærslur á aflaheimildum milli flokka þar sem að aflaheimildir hefðbundins fiskiskipaflota eru skertar og færðar í flokk 2. Markvisst virðist unnið að því að rýra hlut þeirra sem sem fylla flokk 1. Aflahlutdeildir fiskiskips skerðast frá upphafi fiskveiðiársins 2012/2013 um 9,5% af þorski, 6,9% af ýsu, 7,2% af ufsa, 9,8% af steinbít og 5,3% af öllum öðrum tegundum þar sem aflahlutdeild hefur verið úthlutað. Þessari aflahlutdeild er ráðstafað varanlega í flokk 2. Þorri þess flota sem skertur er hefur nú þegar úr að spila allt of litlum aflaheimildum sem víða hefur leitt til þess að skipin liggja langtímum saman verkefnalaus í höfn. Ljóst er að sá tími mun enn lengjast og laun viðkomandi sjómanna skerðast. Afskipti hins opinbera munu stóraukast og vald ráðherra verður úr öllu samhengi við það sem eðlilegt getur með nokkru móti talist í lýðræðisþjóðfélagi. Stóraukin bein ríkisafskipti af útgerð hafa hvergi í veröldinni leitt til annars en spillingar og hnignunar og engin ástæða til annars en það sama verði hér upp á teningnum verði þessi lög að veruleika. Það er í raun bæði sorglegt og fullkomlega óskiljanlegt eftir alla þessa bið sé niðurstaða stjórnvalda tvö frumvörp sem leiða til fjöldagjaldþrota útgerðafyrirtækja. Ummæli ráðherra í þá veru að með þessum frumvörpum sé hann að tryggja til framtíðar afkomu og kjör sjómanna er vægast sagt fullkomin öfugmæli og sáttin sem lýst var yfir að væri í raun meginmarkmið breytinganna á stjórnkerfi fiskveiða mun verða fjær en nokkru sinni fyrr, nái þessi frumvörp fram að ganga.
Nú er að baki rúmur áratugur þar sem í tvígang hefur tekist að ljúka gerð kjarasamninga milli samtaka sjómanna og útgerðarmanna. Þótt sjómenn væru missáttir við þá kjarasamninga á sínum tíma þá voru þeir samþykktir nokkuð afgerandi í báðum tilvikum. Verði frumvörpin að lögum í þeirri mynd sem þau eru nú þá mun af mannavöldum myndast gjá milli hagsmunaaðila sem ég fæ ekki séð hvernig mögulegt verður að brúa við þær aðstæður sem þá skapast. Kröfugerð LÍÚ í komandi samningaviðræðum er upp á 2 ½ bls. en sú kröfugerð var lögð fram löngu áður en núverandi frumvörp lágu fyrir. Margar þeirra krafna hefðu afgerandi áhrif á kjör fiskimanna næðu þær fram að ganga. Þar má nefna kröfuna um að ýmsir nýir kostnaðarliðir verði dregnir frá aflaverðmæti fyrir hlutaskipti s.s. vegna veiðigjalds sem þá var komið á, raforkugjalds og kolefnisgjalds. Þar má einnig líta kröfu útgerðarmanna um aukna þátttöku sjómanna í olíukostnaði og aukna þátttöku eða hlutdeild sjómanna í slysatryggingum. Þetta eru dæmi um mjög stóra liði sem hver um sig yrði erfiður úrlausnar. Nú þegar við bætast frumvörp sem flestir nema reiknimeistarar ríkisstjórnarinnar telja að valdi sjávarútveginum miklum og alvarlegum búsifjum, þá blasir við að þær kjarasamningsviðræður sem framundan eru og þær deilur sem óumflýjanlega koma til með að rísa milli ríkisvaldsins og útvegsmanna munu verða erfiðari en við höfum þekkt til þessa og útilokað er að sjá hvernig lyktar að lokum.
Ég get ekki látið hjá líða að nefna afnám sjómannaafsláttar. Í því máli er löngu ljóst að ekkert var að marka loforð Steingríms þáverandi fjármálaráðherra um að sett yrði af stað vinna til að ganga úr skugga um hvaða kostnað það hefði í för með sér fyrir ríkið, ef sjómenn á fiskiskipum nytu sömu réttinda og annað launafólk, varðandi fæðis og fatapeninga sem almennt eru skattfrjálsir, nema þegar fiskimenn eiga í hlut. Ljóst er að ekki er neins að vænta varðandi aðkomu ríkisins að réttindum sjómanna sem um þessar mundir eru eina sjómannastéttin á norðurlöndum sem ekki eru talin þess verð að njóta skattalegra ívilnana vegna sérstöðu sjómannsstarfsins. Þetta dapurlega viðhorf stjórnvalda hefur leitt til þess að um þessar mundir er til skoðunar að höfða mál gegn ríkinu vegna meints brots á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þar sem ákveðnar starfstéttir s.s. opinberir starfsmenn og ýmsar aðrar stéttir njóta dagpeningagreiðslna v/ starfa sem óumdeilanlega eru samanburðarhæf við störf sjómanna. Margendurteknar yfirlýsingar stjórnvalda um að okkar fyrirmynd sé hið norræna velferðarþjóðfélag á greinilega ekki við þegar sjómenn eiga í hlut. Góðir áheyrendur. Ég vil vegna ummæla ákveðinna forsvarsmanna samtaka sjómanna taka það skýrt fram að aðkoma FFSÍ að þessum mótmælum er algjörlega á forsendum okkar sem stéttarfélags sem hefur það eina hlutverk að gæta hagsmuna Íslenskra skipstjórnarmanna og vísa því alfarið til föðurhúsanna að stjórn sambandsins sé hér að mótmæla vegna þrælsótta við útgerðarmenn. Við metum stöðu mála einfaldlega grafalvarlega og teljum fulla ástæðu til þátttöku í þessum mótmælum. Ég skora á stjórnvöld að draga þessi frumvörp til baka og endurvekja þá sáttanefnd hagsmunaaðila sem á sínum tíma lagði grunn að sátt sem í framhaldinu var að engu gerð í meðförum stjórnarflokkanna. Það er sú leið sem vænlegust er til að leysa þann harða hnút sem þessi deila er komin í. Að lokum vil ég að heilum hug taka undir loka orð Steingríms j. Sigfússonar á sjómannadaginn en hann sagði orðrétt:
Það er gæfa að fæðast Íslendingur, þannig er það og þannig skal það vera og hin gæfusama þjóð stendur í þakkarskuld við eina stétt manna umfram flestar aðrar. Þar átti hann við sjómannastéttina. Þetta er alveg hárrétt, það er okkar lán að vera Íslendingar en í guðanna bænum Steingrímur ekki gera okkur lífið mun erfiðara en það þarf að vera með með lagasetningu sem setur undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar í algjört uppnám.