Ályktanir frá Formannaráðstefnu Farmanna-og fiskimannasambandsins 23. og 24. nóvember

Kjaramál

Formannaráðstefna Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldin 23. nóvember 2012 lýsir áhyggjum af stöðu samningamála milli sjómanna og Landsambands Íslenskra Útvegsmanna, ekki síst með tilliti til fullyrðinga stjórnvalda um að nýálögð veiðigjöld eigi ekki að hafa áhrif á launakjör sjómanna, en útvegsmenn telja að sjómenn skuli taka þátt í þessum nýju álögum stjórnvalda á útgerð og fiskvinnslu með lækkun launa sinna.

Ráðstefnan mótmælir því harðlega að opinber álagningarstefna stjórnvalda á atvinnugreinina rýri kjör sjómanna.

Ályktun til Samkeppnisstofnunar

Formannaráðstefna Farmanna- og fiskimannasamband Íslands haldin 23. og 24. nóvember 2012 beinir því til Samkeppnisstofnunar að hún skoði nú þegar hvort sala og verðlagning á fiski í beinum viðskiptum milli aðila standist samkeppnislög.

Ályktun um slysatryggingu fiskimanna.

Formannaráðstefna Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldin 23. og 24. nóvember 2012, beinir þeim tilmælum til sameiginlegrar samninganefndar fiskimanna að kvika í engu frá þeim árangri sem náðst hefur í slysatryggingu fiskimanna.

Greinargerð:

Það tók fiskimenn marga áratugi og ómælda baráttu að koma slysatryggingum á þann stað þar sem þær nú eru, og því óðs manns æði að slaka þar á.

Um sjómannaafslátt

Formannaráðstefna Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldin dagana 23. og 24. nóvember 2012 krefst þess að stjórnvöld hætti við afnám sjómannaafsláttarins og skili sjómönnum þeim sjálfsagða rétti sem þeir hafa notið í meira en 50 ár.

Greinargerð.

Hjá öllum siðmenntuðum þjóðum þar sem sjómennska er stunduð njóta sjómenn skattalegra hlunninda vegna sérstöðu starfsins. Ísland sker sig algjörlega úr í samanburði við aðrar þjóðir að þessu leiti. Norræna velferðarsamfélaginu, sem stjórnmálamenn vísa ósjaldan í sem okkar framtíðarfyrirmyndar, er gefið langt nef, þar sem sjómenn allra norðurlanda njóta margfaldra hlunninda umfram þau sem verið er að svipta íslenska sjómannastétt.

Um skiljuhólf

Formannaráðstefna farmanna- og fiskimannasamband Íslands haldin 23. og 24. Nóvember 2012.

Ályktar að skiljuhólf verði aflögð á miðunum við landið og að leyfðar verði veiðar með 135 mm möskva í poka.

Greinargerð

Rannsóknir hafa sýnt að notkun skilju veldur skemmdum í fiskholdi og skapar slysahættu í vondum veðrum. Skipstjórnarmenn telja að næg verndun smáfisks felist í skyndilokunum og ávinningur af notkun skilju sé í raun lítill sem enginn. Skipstjórnarmenn á togurum telja að á þessum svæðum séu ekki vandamál hvað varðar smáfiskagengd og skyndilokanir hafi ekki verið það tíðar að réttlæta að skilju sé krafist. Benda má á að búið er að afnema skiljunotkun, s.s fyrir austfjörðum og ekki hafa hlotist af því nein þau vandamál sem telja má að upp komi frekar fyrir vestfjörðum.Skipstjórnarmenn benda á að hitastig sjávar hefur breyst talsvert frá því reglugerð um skilju var sett, jafnframt hafa aðrar tegundir svo sem karfi, ufsi og ýsa orðið meira áberandi í afla togskipa á umræddum svæðum. Því telja skipstjórnarmenn nauðsynlegt að ákvörðun um skiljuhólf sé tekin til endurskoðunar.

Um verðmyndun sjávarafla.

Formannaráðstefna Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldin 23. og 24. nóvember 2012, skorar enn og aftur á þar til bær yfirvöld að beita sér með öllum ráðum fyrir því að allur sjávarafli verði verðlagður í gegnum fiskmarkað eða afurðaverðstengdur.

Greinargerð:

Ekki verður endalaust við það unað að verðlagning á sjávarafla sé með þeim hætti sem raun ber vitni. Áratugum saman hefur verið ófriður og megn óánægja með núverandi kerfi.

Þingið lýsir yfir að deilur um fiskverð verði aldrei leystar nema að allur fiskur verði seldur á uppboðsmörkuðum eða beintengt markaðsverði. Aðrar lausnir munu aðeins halda deilunni gangandi um ókomin ár.

Um framsal aflaheimilda

Formannaráðstefna FFSÍ haldin 23. og 24. nóvember 2012 skora á ríkisstjórnina að takmarka leiguframsal innan fiskveiðiársins, jafnframt verði veiðiskylda stóraukin ( að lágmarki í 80%) innan fiskveiðiársins.

Greinargerð. Leiga á aflaheimildum innan ársins er og verður ein meginástæðana fyrir misferli við launauppgjör sjómanna. Eins ættu sjómenn sem ráða sig í skipspláss að geta treyst því að hafa a.m.k. tekjur í samræmi við útgefnar veiðiheimildir skipsins.

Greiðsla vegna aukinnar skrifstofuvinnu

Formannaráðstefna farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldin 23. og 24. Nóvember 2012, krefst þess að hlutir skipstjórnarmanna verði eftirfarandi:

Skipstjóri 2,25 hlutir

Yfirstýrimaður 1,75 hlut

Annar stýrimaður 1,5 hlutir

Greinargerð

Þar sem pappírsvinna hefur aukist verulega um borð í öllum skipum, vegna rekjanleika á afurðum, þar sem(HACCAP) og önnur eftirlitskerfi hafa verið sett um borð.

Vegna þessa hefur ábyrgð og vinna skipstjórnarmanna aukist til muna án þess að greiðsla hafi komið fyrir.

Um starfsemi Hafrannsóknastofnunar.

Formannaráðstefna FFSÍ haldin 23. og 24. nóvember 2012, telur brýnna en nokkru sinni að stórauka haf- og fiskirannsóknir. Aukin þekking á ástandi fiskistofna er algjör grunnforsenda fyrir betri nýtingu á auðlindum hafsins. Það er algjör lágmarkskrafa að tryggt sé að rannsóknarskip stofnunarinnar séu nýtt til rannsókna af fullum krafti allt árið, en liggi ekki í höfn langtímum saman vegna skorts á rekstrarfé.

Ályktun um hvalveiðar frá formannaráðstefnu FFSÍ dagana 23. og 24. nóv. 2012

Farmanna-og fiskimannasamband Íslands varar eindregið við vanmati á þeim áhrifum sem afrán hvalastofna hefur á þá nytjastofna sem mesta þýðingu hafa. Ef festa á í lög til framtíðar almennt hvalveiðibann, þá skerðast umtalsvert möguleikar halda vexti og viðgangi annarra sjávarlífvera. Sem fyrr lýsir FFSÍ eindregnum stuðningi við hvalveiðar.

Ályktun um útgerð kaupskipa

Formannaráðstefna Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldin 23.-24. nóvember 2012, krefst þess að stjórnvöld tryggi að útgerðir kaupskipa á íslandi verði samkeppnishæfar við útgerð kaupskipa á alþjóðlegum grundvelli. Íslensk kaupskipaútgerð er þegar aflögð en tryggja verður að atvinnugreinin geti lifnaði við og átt möguleika til framtíðar. Ljóst má vera að inn- og útflutningur þjóðarinnar mun ávallt byggjast á sjóflutningum að stærstum hluta.

Greinargerð

Stjórnvöld hafa ekki sýnt að þau geri sér grein fyrir mikilvægi þess að kaupskipaútgerð fái þrifist á Íslandi. Það er ekki frjáls þjóð sem ekki ræður yfir kaupskipaflota sínum.

 

Sjóferðabækur

Formannaráðstefna Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldið 23.-24. nóvember 2012, skorar á innanríkisráðherra að hafin verði þegar í stað útgáfa á nýjum persónuskilríkjum (sjóferðabókum) fyrir sjómenn í samræmi við samþykktir ILO

Greinargerð

Íslenskir sjómenn í alþjóðlegum siglingum hafa átt í verulegum vandræðum með að komast í land sem og að hafa skipti á skipsrúmi í erlendum höfnum þar sem núverandi sjóferðarbækur eru ekki í samræmi við samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um persónuskilríki sem íslensk stjórnvöld hafa undirritað.

Í dag eru um 800 íslenskir sjómenn handhafar alþjóðlegra atvinnuskírteina. Dæmi eru um að sjómönnum hafi verið synjað um landgönguleyfi erlendis vegna þess að rétt skírteini eru ekki fyrir hendi.

Formannaráðstefna Farmanna-og fiskimannasambands Íslands haldin 23 og 24 nóvember, krefst þess að Landhelgisgæslu Íslands verði tryggt nægt fjármagn til þess að halda varðskipum í fullum rekstri allt árið.

Greinargerð

Fjársvelti Landhelgisgæslunnar til margra ára er augljóslega farið að ógna öryggi bæði sjómanna og landsmanna allra.

Um starfsemi Hafrannsóknastofnunar.

Formannaráðstefna FFSÍ haldin 23. og 24. nóvember 2012, telur brýnna en nokkru sinni að stórauka haf- og fiskirannsóknir. Aukin þekking á ástandi fiskistofna er algjör grunnforsenda fyrir betri nýtingu á auðlindum hafsins. Það er algjör lágmarkskrafa að tryggt sé að rannsóknarskip stofnunarinnar séu nýtt til rannsókna af fullum krafti allt árið, en liggi ekki í höfn langtímum saman vegna skorts á rekstrarfé.

Greinargerð:

Formannaráðstefnan telur að leggja beri mun meiri áherslu á vistfræðilegar rannsóknir en gert hefur verið til þessa, í því skyni að leita svara við fjölmörgum spurningum um grundvallarbreytingar í lífríki hafsins. Má þar nefna breytingar í útbreiðslu loðnustofnsins og hnignun stofnsins undanfarin ár og viðvarandi nýliðunarbrest í þorskstofninum um áratuga skeið. Ljóst er ennfremur að mun víðtækari sjó- og vistfræði rannsókna er þörf til að unnt sé meta umfang og áhrif af hlýnun andrúmslofts og sjávar sem verið hefur undanfarin ár og gætir nú þegar í miklu mæli á Íslandsmiðum og nálægum hafsvæðum. Slíkar rannsóknir krefjast algerrar stefnubreytingar í fjárveitingum til hafrannsókna hér við land en eru jafnframt óhjákvæmilegar til að öðlast þá þekkingu sem nauðsynleg er til verndar og raunverulega sjálfbærrar nýtingar á lífríki hafsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Félag skipstjórnarmanna notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á skipstjorn.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur