Ísland er aðili að Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er eins konar stjórnarskrá hafsins. Ísland á einnig aðild að MARPOL-samningnum um verndun hafsins. Fimmtíu ár eru nú liðin frá því að samningurinn leit dagsins ljós. Auk samningsins sjálfs eru við hann sex mikilvægir viðaukar. Við höfum staðfest fjóra þeirra en þeir fjalla um varnir gegn olíumengun, mengun af völdum fljótandi eiturefna, hættulegra efna í pökkuðu formi og sorps.
Í ársbyrjun 2018 voru 156 ríki aðilar að MARPOL samningnum eða um 99,42% af skipaflota heimsins ( world’s shipping tonnage.) Það var á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) árið 1973. sem samningurinn var upphaflega settur á stofn. Það var svo árið 1978 sem bókun var samþykkt til að bregðast við tíðum slysum olíuskipa á árunum 1976 – 1977.
Með auknum kröfum um mengunarvarnir og öryggismál sjómanna og farþega hefur FS lagt áherslu á málefni til varnar hafinu og náttúrunni við strendur landsins. Má þar nefna tillögur um að komið verði á lóðsaskyldu á skemmtiferðaskip sem sigla inn um firði og flóa án staðkunnugra leiðsögumanna með gilt leiðsögumannaskírteini, en þar gæti slys haft alvarlegar afleiðingar ef farþegaskip strandar við íslensku ströndina með fjölda farþega innanborðs auk þeirrar mengunar sem slíku gæti fylgt. Við væntum þess að slík skylda verði tekin upp innan tíðar.
Umhverfisstofnun, Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands eru stjórnvöld í skilningi MARPOL-samningsins og hafa því hlutverki að gegna þegar kemur að eftirfylgni með ákvæðum samningsins og viðauka við hann.
Nánari upplýsingar er að finna á slóðinni: https://ust.is/haf-og-vatn/mengun-fra-skipum/marpol/.