Ályktanir frá 47. þingi FFSÍ

Um gerð kjarasamninga fiskimanna

47. Þing FFSí, krefst þess að sett verði í lög um stjórn fiskveiða ákvæði um að lögaðili fái ekki úthlutað aflaheimildum nema að fyrir liggi gildandi kjarasamningur milli aðila

Greinagerð:

Samningar sjómanna hafa verið lausir síðan 1. Jan 2011, og það er óboðlegt að hægt sé að halda stéttarfélögum í gíslingu árum saman og neita að semja um eðlileg kjör sérstaklega þegar úthlutað er til fyrirtækja almannagæðum gegn vægu eða engu gjaldi.

 

Um kjaramál fiskimanna

47. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldið dagana 26.og 27. nóvember 2015, ályktar að kröfur SFS um kjaraskerðingu á hendur sjómönnum séu fráleitar í ljósi þeirrar staðreyndar að rekstrarafkoma sjávarútvegsfyrirtækja hefur í sögulegu samhengi aldrei verið betri en undafarin ár. Frá hruni hafa arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja í sjávarútvegi numið 49 milljörðum sem segir allt sem segja þarf um velgengni síðustu ára.

Þingið mótmælir margra ára gamalli kröfugerð útgerðarmanna sem er ekki neinu samræmi við afkomu greinarinnar.

 

Um verðmyndun sjávarafla.

47. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldið dagana 26. og 27. nóvember 2015 skorar á hlutaðeigandi yfirvöld að beita sér fyrir því að sömu forsendum verði beitt við verðmyndun alls sjávarafla á Íslandi að frátöldum uppsjávartegundum sem verðleggja skal með hliðsjón af afurðaverði með samræmdri vikulegri upplýsingagjöf viðkomandi fyrirtækja til Verðlagsstofu.

Greinargerð:

Ekki verður lengur við það unað að verðlagning á sjávarafla sé með þeim hætti sem raun ber vitni. Árum saman hefur verið ófriður og megn óánægja með núverandi kerfi.

Þingið lýsir yfir að deilur um fiskverð verði aldrei leystar nema að allur fiskur verði seldur á uppboðsmörkuðum eða beintengdur markaðsverði. Aðrar lausnir munu aðeins halda deilunni gangandi um ókomin ár.

 

Um stjórnkerfi fiskveiða

47. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldið dagana 26. og 27. nóvember 2015 lýsir yfir miklum vonbrigðum með að áform stjórnvalda um að lögfesta á kjörtímabilinu ný lög um stjórn fiskveiða séu að engu orðin.

Viðvarandi óvissa um framtíðarfyrirkomulag á stjórn fiskveiða hefur leitt af sér algjöra kyrrstöðu í kjarasamningsviðræðum sjómanna og útvegsmanna sem mál er að linni. Tæp fimm ár eru síðan kjarasamningur stéttarfélaga sjómanna og útgerðarmanna (SFS) og rann út.

 

Ályktun til Samkeppnisstofnunar

47. þing Farmanna- og fiskimannasamband Íslands haldið dagana 26. og 27. nóvember 2015 beinir því til Samkeppniseftirlitsins að lögð verði áhersla á að ljúka afgreiðslu stofnunarinnar á greinargerð FFSÍ sem afhent var Samkeppniseftirlitinu þann 25. september sl. þar sem óskað er eftir svörum við hvort núverandi fyrirkomulag á verðmyndun sjávarfangs sé samrýmanlegt 1. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar þar sem segir m.a.: Markmið laga þessar er að bæta umgengni um nytjastofna sjávar og stuðla að því að þeir verði nýttir með sjálfbærum hætti er tryggi til langs tíma hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina. Ljóst er að 1. Grein laga um stjórn fiskveiða tekur af öll tvímæli um að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Sé að endingu horft til ofangreindra lagaákvæða og þau vegin og metin út frá megin markmiðum samkeppnislaga þá blasir að mati FFSí við núverandi fyrirkomulag á verðmyndun sjávarfangs er fjarri því að vera samrýmanleg gildandi ákvæðum laga. Hér að neðan má sjá fyrstu grein Samkeppnislaga.

1. gr. Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu

framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:

a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,

b. vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,

c. auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum.

Afleiðing núverandi fyrirkomulags hefur leitt til þess að 80 % af öllum afla sem landað er fer fram hjá fiskmörkuðum á verði sem er tugum prósenta undir markaðsverði. Afleiðingar eru þær að fólkið í landinu greiðir mun hærra verð en ella fyrir fiskmeti.

Vaxandi brögð eru á því að fiskmarkaðir annist bein viðskipti milli óskyldra aðila í gegnum fiskmarkaði, öllu jöfnu á svipuðu verði og í gangi eru á uppboðsmarkaði. Sá gríðarlegi mismunur á verðlagningu sem fram kemur á milli þessara mismunandi ráðstöfunaraðferða getur vart verið forsvaranlegur.

Um starfsemi Hafrannsóknastofnunar.

47. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldið 26. og 27. nóvember 2015 telur brýnna en nokkru sinni að stórauka veiðarfæra-, haf- og fiskirannsóknir. Aukin þekking á þessum sviðum er algjör grunnforsenda fyrir betri nýtingu á auðlindum hafsins. Ómæld verðmæti fara forgörðum að óbreyttu ástandi. Það er algjör lágmarkskrafa að tryggt sé að rannsóknarskip stofnunarinnar séu nýtt til rannsókna af fullum krafti allt árið, en liggi ekki í höfn langtímum saman vegna fjárskorts.

 

 

Ályktun um Landhelgisgæslu Íslands

47. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldið dagana 26. og 27. nóvember 2015 skorar á stjórnvöld að tryggja Landhelgisgæslu Íslands nægjanlegt fjármagn til reksturs skipa stofnunarinnar. Það er óviðunandi að skip Landhelgisgæslunnar liggi bundin við bryggju meirihluta ársins. Það eru lágmarkskröfur að minnsta kosti einu skipi sé haldið á miðunum kringum landið á hverjum tíma. Öryggi sjófarenda er í húfi.

Greinargerð:

Um allt of langan tíma hafa fjárveitingar til útgerðar skipa Landhelgisgæslunnar verið skornar við trog. FFSÍ sem hagsmunaaðili skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, hverju nafni sem þau nefnast, finnur fyrir áhyggjum sinna skjólstæðinga vegna þessa. Brýnt er að bæta úr þessu strax.

Um sjómannaafslátt

47. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldið dagana 26. og 27. nóvember 2015 krefst þess að stjórnvöld skili sjómönnum til baka þeim sjálfsagða rétti sem þeir hafa notið í meira en 50 ár. T.d með því að taka upp skattfríar dagpeningagreiðslur sambærilegar og aðrar stéttir hafa.

Greinargerð:

Hjá öllum siðmenntuðum þjóðum þar sem sjómennska er stunduð njóta sjómenn skattalegra hlunninda vegna sérstöðu starfsins. Ísland sker sig algjörlega úr í samanburði við aðrar þjóðir að þessu leiti. Norræna velferðarsamfélaginu, sem stjórnmálamenn vísa ósjaldan til sem okkar fyrirmynd er gefið langt nef, þar sem sjómenn allra norðurlanda njóta margfaldra hlunninda umfram þau sem búið er að svipta íslenska sjómannastétt.

 

Ályktun um útgerð kaupskipa

47. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldið dagana 26.-27. nóvember 2015, krefst þess að stjórnvöld tryggi að útgerð kaupskipa á Íslandi verði samkeppnishæf í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi greinarinnar. Íslensk kaupskipaútgerð er þegar aflögð en tryggja verður að atvinnugreinin geti lifnað við og átt möguleika til framtíðar. Við núverandi aðstæður búa islenskar áhafnir kaupskipa við ótryggt starfs- og kjaraumhverfi starfandi á skipum undir erlendum þægindafánum. Ljóst má vera að inn- og útflutningur þjóðarinnar mun ávallt byggjast á sjóflutningum.

Greinagerð:

Stjórnvöld hafa ekki sýnt að þau geri sér grein fyrir mikilvægi þess að kaupskipaútgerð fái þrifist á Íslandi. Búa þarf kaupskipaútgerð samkeppnishæft skattaumhverfi til samræmis við það sem alþjóðleg útgerð býr við. Það er ekki frjáls þjóð sem ekki ræður yfir kaupskipaflota sínum.

Hráefni til stóriðju sem og afurðir stóriðju eru að langstærstum hluta flutt að og frá landinu með skipum í eigu erlendra aðila og mönnuð erlendum sjómönnum. Sama gildir um útflutning á sjávarafurðum. Nú er svo komið að aðeins eru 7 kaupskip mönnuð sjómönnum búsettum á Íslandi.

 

Ályktun um hvalveiðar

47. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldið dagana 26. og 27. nóvember 2015 lýsir sem fyrr yfir afdráttarlausum stuðningi við hvalveiðar og varar eindregið við vanmati á þeim áhrifum sem afrán hvalstofna hefur á þá nytjastofna sem mesta þýðingu hafa.

 

Um mönnunarmál

47. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldið dagana 26.-27. nóvember 2015 lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun mönnunarmála í fiskiskipaflotanum og krefst þess að gerð verði að hálfu hins opinbera úttekt á vinnutilhögun á fiskiskipum þar sem fækkun hefur átt sér stað án neinna gildra forsendna.

Greinargerð:

Á nýjustu uppsjávarskipum okkar er mönnun komin niður fyrir þau mörk sem eðlileg geta talist. Skipstjórar þessara skipa virðast ekki lengur hafa neitt að segja um fjölda í áhöfn þótt þeir eftir sem áður beri ábyrgð á öryggi skips og áhafnar.

Ekki er síður ámælisvert þar sem svo háttar til að fækkað hefur verið úr 15 í 13 á ísfisktogurum en þetta leyfa ákveðnar útgerðir sér að gera á sama tíma og afli hefur tvöfaldast.

 

Öryggismál

47. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldið dagana 26.-27. nóvember 2015 fagnar yfirlýsingu Rannsóknarnefndar samgönguslysa þar sem lýst er yfir að taka verði flakið af Jóni Hákoni BA til að ljúka rannsókn þessa hörmulega slyss og skorar á þar til bær yfirvöld að bregðast við þessari beiðni. Sambandið beinir þeirri áskorun til stjórnvalda að beita sér fyrir því að viðbrögð vegna sjóslysa verði í framtíðinni sambærileg og þegar um flugslys er að ræða.

 

Ályktun um dragnótaveiðar

Þing Farmanna og fiskimanna haldið 26.-27. nóvember 2015 skorar á sjávarútvegsráðherra að endurskoða gildandi reglugerð um dragnótaveiðar. Í stað þess að skipta miðunum í kring um landið í fjögur svæði, þannig að það verði aðeins eitt svæði.

Greinagerð:

Síðan þessi reglugerð tók gildi hafa orðið miklar breytingar á sókn á dragnót, skipum fækkað mikið þannig að álag á einstök svæði verður aldrei of mikil. Þannig að hægt verði að stýra veiðum með meiri hagkvæmni með tilliti til veðurs og fiskigengdar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Félag skipstjórnarmanna notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á skipstjorn.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur