Félag skipstjórnarmanna lýsir yfir mikilli ánægju með tillögu til þingsáætlunar að skipa starfshóp sem gerir úttekt á hvernig staðið er að verndun og varðveislu skipa og báta og tillögur að úrbótum sbr. 151 löggjafarþing 2020 – 2021. Ekki er seinna vænna en að huga að þessu málefni og gera úttekt á verndun skipa og báta á Íslandi. Við Íslendingar eigum merkilega sögu að baki í bátasmíði frá fornu fari en svo við færum okkur ekki lengra aftur en til síðustu aldar að þá voru hér á landi fjölmargar báta- og skipasmíðastöðvar hringinn í kringum landið.
Því miður hafa margir fallegir og merkilegir bátar orðið eldi að bráð á áramótabrennum landsmanna og öðrum verið sökkt þegar hlutverki þeirra var lokið, oft eftir langa og trygga þjónustu. Okkur bar því miður ekki gæfa til að varðveita nýsköpunartogara eða fyrsta skip Eimskipafélagsins – Gullfoss sem kom nýr til landsins 1915 og sigldi vestur um haf, trúlega fyrstur íslenskra skipa á eftir Leifi heppna Eiríkssyni svo dæmi séu tekin. Gullfoss var að vísu hertekinn af Þjóðverjum en frændur okkar Færeyingar keyptu skipið eftir styrjöldina og notuðu til ársins 1953. Ekki var heldur hugað að varðveislu stærri eikarbáta sem smíðaðir voru hér á landi á fyrri hluta síðustu aldar. Smíði trébáta til sjósóknar og atvinnunotkunar er hætt á Íslandi og hefur ekki verið um nokkurt skeið og því telur FS að friða eigi þá báta sem hafa menningar- og sögulegt varðveislugildi þrátt fyrir að vera smíðaðir eftir 1950. Nú þurfum við að bretta upp ermar og gera gangskör að því að varðveita þá báta sem liggja undir skemmdum og hafa menningarsögulegt gildi og sterka tengingu við heimabyggð eða verstöð. Að okkar mati þarf að skrásetja sögu þeirra, smíðastað, eigendur o.s.frv.
Til þess að verndunin og varðveisla verði að veruleika, þarf ríkissjóður að úthluta árlega fjármunum í verkefnið til að viðhalda bátunum og standa straum af öðrum kostnaði. Einnig mætti stofna sjóð um verkefnið eins og gert var um friðun húsa en alltént þyrfti að ráða einstakling með þekkingu á málefninu tímabundið a.m.k. Litlum fjármunum hefur verið varið í friðun gamalla skipa og báta úr fornminjasjóði og þarf því þetta verkefni að vera sjálfstætt og snúa eingöngu að friðun skipa og báta eftir ákveðnum reglum. Það þarf ekki að leita langt yfir skammt, við gætum jafnvel lært af því hvernig nágrannaþjóðir okkar bera sig að og hvernig þeim hefur tekist að varðveita gömul skip og báta úr tré og járni. Það er gríðarlega mikilvægt að bátarnir verði varðveittir á floti en ekki settir á land eins og plagsiður hefur verið hjá okkur Íslendingum á undanförnum árum og áratugum. Tréskip eiga að vera á floti en ekki uppá þurru landi.
Segja má að aðkoma opinberra aðila að varðveislu skipa og báta hafi ekki verið burðug. Ef ekki væri fyrir hvalaskoðunarfyrirtækin og aðra einkaaðila, þá ættum við Íslendingar nánast engin eikarskip eftir. Áhuga og þekkingaleysi er aðal ástæða þess hvernig þessi mál eru. Það er gott að hafa í huga að það voru einmitt skip, bátar og sjómenn sem lyftu Íslandi upp úr fátækt. Þegar skúturnar komu og Íslendingar fóru að sækja dýpra tók landið smám saman að rétta úr kútnum.
Við teljum að það sé fullt tilefni til að verndun skipa og báta, sem hafa varðveislugildi, verði sambærileg og verndun byggingararfs. FS tekur heilshugar undir mikilvægi þess að viðhalda þekkingu á smíði gamalla báta og skipa og að skólar landsins fræði nemendur um mikilvægi sjósóknar fyrr á tímum og með hvaða hætti þjóðin komst til bjargálna.