Á sama tíma og verið er að hrinda úr vör könnun á hvíldartíma áhafna á fiskiskipum, í samræmi við bókun í kjarasamningi þar um, berast fregnir af því að eigendur Samherja hafi tekið ákvörðun um að fækka í áhöfnum togara sinna. Um langa hríð hafa þrátt fyrir gríðarlega aflaaukningu verið 13 menn í áhöfn Björgúlfs EA.
Auk þess hefur nú einnig verið fækkað á Björgvin EA og að sögn stendur til að fækka á hinum togurum félagsins fljótlega. Með þessu háttarlagi eru æðstu menn fyrirtækisins að sýna stéttarfélögum sjómanna og um leið sínum eigin samtökum fádæma óvirðingu þar sem það var ekki síst vegna óásættanlegs viðhorfs stjórnenda fyrirtækisins til mönnunarmála að krafa um ofangreinda könnun kom fram og var samþykkt.
Ef aflbrögð verða á svipuðum nótum og undanfarin ár þá vita allir sem til þekkja að staðnar verða óteljandi frívaktir um borð í þessum skipum. Það verður því forvitnilegt að sjá hvað kemur til með að standa í þeim gögnum sem skilað verður til Samgöngustofu frá þessum skipum. Reyndar er mjög víða búið aðkoma á nýju vaktkerfi sem maður hélt að útrýma myndi frívöktum þar sem staðnir eru 8 tímar og 8 tíma hvíld, en mér er tjáð að þegar á reyni þá sé alveg inn í myndinni að klippa framan og aftan af hvíldartímanum.
Verði niðurstaða könnunarinnar sú að allt sé í lukkunnar velstandi þegar ísfisktogari með 13 manna áhöfn kemur til löndunar eftir tvo daga á veiðum með 120-30 tonn, engin frívakt og allir eldsprækir þá er sú niðurstaða ekki í neinu samræmi við staðreyndir um afköst. Sjómenn vilja skiljanlega halda vinnunni, en það hlýtur að vera enn mikilvægara fyrir þá ekki síður en aðra að halda heilsunni.
Óskiljanleg afstaða
Nú er það svo að Samherji og dótturfyrirtæki hafa verið í fremstu röð með endurbætur og endurbyggingu á sínum fiskiðjuverum með öllum þeim tækninýjungum og búnaði sem leiðir til betri nýtingar, aukinna afkasta og meiri gæða með færra starfsfólki. Staðreyndin er sú að allt önnur lögmál gilda úti á sjó, þrátt fyrir nýju skipin sem streymt hafa til landsins undanfarin misseri. Til að tryggja hráefnisgæðin þarf að koma aflanum eins hratt og mögulegt er, aðgerðum, þvegnum og ísuðum niður í lest. Með færri og þreyttari mönnum lengist þetta ferli sem leiðir til þess að í mikilli veiði, eins og blessunarlega hefur verið viðvarandi undanfarin ár, verða gæði hráefnis lakari.
Til viðbótar aukast líkur á veikindum vegna of mikils álags sem að öllu eðlilegu ætti að leiða til stóraukins kostnaðar útgerðar vegna veikindalauna og ávinningur af fækkun í áhöfn þar með fyrir bí. Þessar fækkanir væru mögulega skiljanlegar ef Samherji og tengd fyrirtæki væru á heljarþröm og í alvarlegum fjárhagslegum þrengingum og þetta væri einhver þrautalending til bjargar rekstrinum.
Ekkert er fjarri raunveruleikanum og þar af leiðandi hreinlega til skammar að staðið sé að málum með þeim hætti sem raun ber vitni.
Gleðilegt sumar
Árni Bjarnason