Grensásvegi 13 Reykjavík. Sími: 520 1280 Fax: 520 1289 This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Fráleitur málflutningur.
Guðmundur Ragnarsson formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna hefur farið mikinn að undanförnu og haft stór orð um þá sem undanfarin misseri hafa í samstarfi við hann unnið að því að koma saman kjarasamningi fiskimanna.
Í pistli á heimasíðu VM segir hann að vinnubrögð Sjómannasambands Íslands séu þau óheiðarlegustu sem hann hafi upplifað fram að þessu við gerð kjarasamninga og óljóst hvernig hægt sé að vinna með aðilum sem vinna svona. Annað hvort eru menn að vinna saman eða ekki.
Hver er óheiðarlegur ?
Sannleikurinn er sá að Guðmundur hefur tekið þátt í öllu því ferli sem átt hefur sér stað, hvort sem um er að ræða breytingar á texta í sjálfum kjarasamningnum eða þær bókanir sem hann hefur nú lýst yfir að séu einskis virði að hans mati og fá sömu einkunn og hann gefur nú samningnum sjálfum. Einum fulltrúa frá Sjómannasambandinu og öðrum frá SFS var fyrir hönd samningsaðila falið að setja upp heilstætt plagg sem innihéldi allt það sem tíundað hefur verið, en þar var einfaldlega um að ræða uppsetningu á því sem samkomulag hafði náðst um. Allt lá þetta fyrir áður en Guðmundur brá sér á EM í knattspyrnu. Þegar hann kemur heim að afloknu fríi er boðað til fundar þar sem samningurinn ásamt bókunum lá tibúinn til undirskriftar. Á þessum fundi hóf Guðmundur Ragnarsson mál sitt á því að lýsa því yfir að hann gæti ekki samþykkt eitthvað sem hann vissi ekkert um, þrátt fyrir að hafa verið höfundur að því ásamt öðrum fulltrúum sjómannasamtakanna. Nánast í beinu framhaldi sagðist hann samt sem áður tilbúinn til að skrifa undir samninginn, ef samningsaðilar samþykktu þá sérkröfu VM að aukahlutur þess vélastjóra sem fækkað hefur verið um á nokkrum uppsjávarskipum, gengi til þeirra tveggja vélstjóra sem eftir eru í áhöfnum slíkra skipa. Að öðrum kosti muni hann ekki skrifa undir. Honum var bennt á að gríðarleg fækkun í áhöfnum þessara skipa kæmi niður á allri áhöfninni og eitt að því sem fram kæmi í þeim „ einskisverðu“ bókunum sem fylgdu samningnum gengi út á að rannsaka, í samráði við Samgöngustofu, hvíldartíma áhafna þessara skipa með tilliti til mönnunar.
Lokaorð
Staðreynd þessa máls er sú að formaður VM tekur einn og sér ákvörðun um að rjúfa þá samvinnu og samstöðu sem til þessa hefur verið til staðar, með einni kröfu er varðar tiltölulega fámennan hóp vélstjóra sem rétt eins og aðrir áhafnarmeðlimir uppsjávarskipa, hafa þurft að takast á við óeðlilega fækkun í áhöfn. Allar ávirðingar hans og brigzl um óheiðarleika snúa lóðbeint að honum sjálfum, engum öðrum.
Árni Bjarnason